148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[00:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi þyrlurnar, það er gríðarlega mikið gleðiefni að nú sjáum við fyrir þann tíma sem við erum með það mál á dagskrá og við förum að hrinda því í framkvæmd. Það styttist í að við getum boðið út og gert samninga og það verður að segjast alveg eins og er að þegar svona mál hafa komist á dagskrá í fjármálaáætlun eða í almenna umræðu eru þau orðin hluti af veruleikanum og þá fara menn bara að biðja um næsta mál, en þetta er mál sem við eigum enn eftir að klára. Þetta er engin smáfjárfesting, þetta eru nokkrar þyrlur og hver og ein sem sagt upp á einhverja milljarða.

Ég fagna þessu af tveimur ástæðum, annars vegar vegna þess að ég hef haft þá trú að við förum ekki vel með fé með því að leigja þyrlur eins og við höfum reynst þurfa að gera á undanförnum árum og hins vegar vegna þeirra framfara sem verða í störfum Landhelgisgæslunnar við það að fá nýjustu tækni í sína þjónustu.

Varðandi dómstólana er það mikið aðalatriði að létta álagi af Hæstarétti með nýja dómstiginu, að við getum fengið skjótari niðurstöðu í þessi einfaldari mál en séum ekki að drekkja æðsta dómstiginu í allra handa málum eins og hefur verið þegar við höfum einungis haft einn áfrýjunardómstól. Ég er algjörlega sannfærður um að þessi breyting sem hefur í öllum aðalatriðum notið gríðarlega mikils stuðnings frá upphafi muni reynast vel og auka tiltrú á dómskerfinu í landinu.

Hér var vikið að því að við værum ekki mjög mikið að auka við framlög (Forseti hringir.) til rekstrar á dómstiginu í fjármálaáætluninni en aðalatriðið sem hv. þingmaður kom inn á er að við höfum einmitt nýgert það út af þessu nýja dómstigi.