148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[00:38]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og tek undir með hæstv. ráðherra. Þyrlukaupin eru mikið fagnaðarefni og augljóst að þau munu efla Gæsluna verulega og allt rekstraröryggi, fyrir utan það að eiga þyrlurnar frekar en að leigja tvær af þremur sem fyrir eru.

Varðandi dómstigin er mikilvægt að nýta betur fjármunina en ekkert síður að bæta þjónustuna, ég tek undir það. Hér er eitt málefnasvið sem ég hef ekki komið inn á en það felur í sér persónuvernd og trúmál. Þar eru sýslumenn, stjórnsýsla dómsmálaráðuneytis og útlendingamálin. Ég ætla að spyrja um sýslumenn vegna þess að rekstrargrundvöllur sýslumannsembætta hefur breyst í þessu breytta umhverfi og hér eru fyrirhugaðar rafrænar þinglýsingar. Hvernig miðar því verkefni og hvernig sér ráðherrann fyrir sér þróun varðandi sýslumenn?

Varðandi málaflokkinn Útlendingastofnun liggur fyrir að aukna fjármuni þurfi til persónuverndar í ljósi gildistöku Evrópureglugerðar af því að það eru ekki neinar breytingar á útgjöldum í málaflokknum í heild en augljóslega þarf að bæta í varðandi persónuverndina, (Forseti hringir.) geri ég ráð fyrir. Að hluta til kom þetta fram í svari við spurningu hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar en ég vildi gjarnan heyra aðeins frekar um þetta því að það þarf augljóslega meiri fjármuni í persónuverndina.