148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika sem bankinn birti í gær. Fjármálaáætlunin sem við ræðum nú á Alþingi byggir á spá Hagstofunnar sem þykir bjartsýn en sannarlega spáir því að hagvöxtur verði minni á komandi misserum en hefur verið undanfarin ár.

Í þessu samhengi er fróðlegt að rýna þessa skýrslu. Þar kemur margt athyglisvert fram sem styður okkur í þeirri viðleitni sem lagt er upp með í áætluninni, að viðhalda hér hagvexti, varðveita efnahagslegan árangur, aukinn kaupmátt og verðstöðugleika samhliða uppleggi um mikla innviðauppbyggingu og aukin útgjöld til velferðarmála. Í skýrslunni koma fram upplýsingar og mat á styrk þjóðarbúsins, þjóðhagslegum styrk, en einnig veikleikum og áhættu sem geta raskað fjármálastöðugleika.

Helstu áhættuþættir tengjast auknu vægi og þróun í ferðaþjónustu og á fasteignamarkaði. Það er sannarlega að hægja á vexti í ferðaþjónustu mælt í komum erlendra ferðamanna til landsins. Með minni hagvexti hefur dregið úr framleiðsluspennu og því dregið úr þeirri áhættu sem hér var fyrir ári síðan á ofhitnun í þjóðarbúskapnum. Fyrirliggjandi spár segja þessa þróun halda áfram næstu misseri.

Húsnæðismarkaður er enn erfiður. Raunverð hækkar og hefur drifið þá verðbólgu sem hefur verið en hagfelldar ytri aðstæður unnið á móti. Geta heimila, fyrirtækja og fjármálafyrirtækja er metin góð og að efnahagsþróunin verði áfram hagfelld. Hagvöxtur er enn töluverður og afgangur á viðskiptajöfnuði og jafnvægi á gjaldeyrismarkaði. Staða heimilanna hefur ekki verið jafn sterk í tvo áratugi, sem er hvað ánægjulegast að lesa, og dregið hefur úr vanskilum, kaupmáttur aukist og þrátt fyrir meiri einkaneyslu tekst heimilunum að mynda sparnað og auka hreina eign. Skuldir heimilanna hafa lækkað á alla mælikvarða; sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, (Forseti hringir.) sem hlutfall af ráðstöfunartekjum og sem hlutfall af hreinni eign.