148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

um fundarstjórn.

[11:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi verklagið við afgreiðslu þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023 verð ég að segja að mér finnst menn gera fulllítið úr því hvert við erum komin í að þroska umræðuna um stefnumörkun í opinberum fjármálum. Þegar menn segja að umræðan sé of grunn, þinginu ekki ætlaður nægur tími o.s.frv. finnst mér sömuleiðis gert lítið úr því hverju er hægt að áorka á mörgum dögum í þingsal, þar sem við höfum tekið þrjá daga, og í fjárlaganefnd og öðrum nefndum sem geta tekið málið til umfjöllunar.

Nefndarálit, umsagnir, gagnrýni og skoðun fjármálaráðs, þetta er allt innlegg í umræðuna og getur haft áhrif til framtíðar. Ég segi bara að ef við getum ekki nýtt almanaksárið til að klára stefnumótun til fimm ára á Alþingi fyrir þjóð sem telur 340.000 manns er eins gott að við erum ekki að reyna að stýra milljónasamfélagi eða hundraða milljóna samfélagi vegna þess að í þeim þjóðþingum sem eru að vinna sama verk í slíkum þjóðfélögum eru jafn margir dagar í almanaksárinu. (Gripið fram í.)