148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[12:15]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Þetta er tímamótamál sem hér er fjallað um og eðlilegt að byrja á því að víkja að hinni nýju umgjörð sem fjárhagsbúskap ríkissjóðs hefur verið sett með nýjum lögum um opinber fjármál og því reglumóverki öllu saman sem því fylgir, lögum frá 2015. Það er ljóst að í þessu ferli er ýmislegt sem hefði mátt gera betur. Kannski eru allir á eilítilli lærdómsbraut í þeim efnum þannig að við getum þá vænst þess að ýmsir agnúar, sem fram hafa komið, verði sniðnir af næst þegar tækifæri gefst. Þegar spá á fyrir framtíðina í efnahagslegu tilliti er mönnum sannarlega mikill vandi á höndum, ekki síst í hagkerfi sem sett er saman eins og okkar. Ríkisstjórninni er eilítil vorkunn í þeim efnum að styðjast við hagspá frá í febrúar við áætlun sem á að taka til næstu fimm ára. Á móti kemur að gagnvart slíkri óvissu hefði verið eðlilegt að leggja meira upp úr því í áætluninni hvernig brugðist yrði við ef umtalsverð frávik koma í ljós frá þeirri hagspá sem þarna liggur fyrir. Svokallaðar sviðsmyndagreiningar eru ekki ný uppfinning og hafa verið ástundaðar á ýmsum sviðum og hefði farið vel á því, svo að ekki sé meira sagt, að í þessari áætlun hefði meira verið lagt upp úr greiningu á því hvað gæti farið úrskeiðis og/eða á annan veg en ætlað er og spáð — og þá nánar í einstökum atriðum hvernig brugðist yrði við.

Í jafn viðamikilli áætlun og hér er er ekki allt á annan veginn. Það eru sannarlega jákvæðir þættir þarna. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt, markmið og áform um lækkun skuldahlutfalls hins opinbera eru afar jákvæður þáttur í þessari áætlun og það mætti geta um ýmis einstök atriði sem slíkt hið sama á við um.

Eins og ég hef leyft mér að benda á í mínum fyrri ræðum virðist mér sem það standi upp úr í þessari áætlun að þrátt fyrir að efnahagsástandið sé að mörgu leyti mjög hagfellt um þessar mundir, og hafi verið á umliðnum misserum og árum, fá þeir sem höllustum fæti standa í okkar samfélagi ekki þá athygli og ekki það liðsinni sem þeir þyrftu á að halda í þessari áætlun. Þetta eru stóru pólitísku skilaboðin í þessari áætlun, þetta er sama ríkisstjórn og taldi sér ekki fært að hækka bætur almannatrygginga nema um 4,7% við síðustu fjárlagagerð. Það er einhver tala sem var bara gripin utan úr geimnum í engu samhengi við neinn efnahagslegan veruleika eða kjaraþróun að undanförnu.

Það er engin leið að svara því og engin svör hafa borist um það hvaðan þessi tala var gripin. Menn eiga orðið þessu að venjast og pólitísku skilaboðin af hálfu þessarar ríkisstjórnar eru alveg skýr. Ég ætla að leyfa mér að vekja athygli á þingsályktunartillögu sem er borin fram af þingmönnum Flokks fólksins og tveimur þingmönnum Miðflokksins um að viðurkenna staðreyndir um að lægstu tekjur duga ekki fyrir nauðþurftum miðað við þær upplýsingar sem fram koma af hálfu opinberra aðila. Er ég þá að sjálfsögðu að vísa til framfærsluviðmiða sem birtast á heimasíðu Stjórnarráðsins, velferðarráðuneytisins nánar til tekið. Þingsályktunartillagan er um að viðurkenna þessar staðreyndir, viðurkenna þá staðreynd að það er ekki hægt að ætlast til þess að fólk greiði skatta af tekjum sem duga ekki fyrir framfærslu. Við skulum sjá hvernig viðbrögð verða við þeirri þingsályktunartillögu.

Sú aðstaða sem fólki er búin sem býr hér við bætur úr hendi hins opinbera er á þann veg að það er hugvitsamleg fátæktargildra sem hefur verið snúin utan um þetta fólk og þegar það, í krafti sjálfsbjargarviðleitni, leitast við að bæta sinn hag, ef það hefur starfsorku til, þegar um öryrkja er að ræða, og auka við sig vinnu og auka með því tekjur sínar, er fyrirkomulagið með þeim hætti að slíkar tekjur eru gerðar upptækar jafnharðan undir formerkjum þess sem kallað er króna á móti krónu. Þar má segja að hver króna til þessara aðila sé svo sannarlega talin eftir.

Gagnvart þessu viðmóti er hins vegar afar skýr sýn sem þessi ríkisstjórn virðist hafa gagnvart annars konar fólki. Þeir sem standa fjármagnsmegin í tilverunni, ríkisstjórnin slær það hér í gadda að hún ætli að lækka fjármagnsskatt, sérstakan skatt á fjármálastofnanir, um allt að 6 milljarða hér á ári. Þar af fara 2 milljarðar til banka í eigu vogunarsjóða. Hvað þýðir þetta, herra forseti? Þetta þýðir að það að greiða á bónusa og kaupauka þessara aðila úr ríkissjóði. Hver króna gagnvart bótaþegunum er talin eftir en 2 milljarðar í kaupaukagreiðslur til starfsmanna vogunarsjóðanna — ekkert mál, kæri vin.

Þetta er náttúrlega örlæti og gjafmildi sem lýsir sér með þessum hætti en það birtist gagnvart þessum aðilum en ekki þeim sem höllustum fæti standa. Þar á öllu að slá á frest og þar er vísað til þess að það séu einhver áform og ráðagerðir og menn eigi bara að bíða og vera rólegir; þetta sé nú einu sinni áætlun og menn eigi að lesa hana þannig og allt þetta.

Það er annað meginatriði sem stendur upp úr þessari fjármálaáætlun og ýmsir hafa auðvitað gert hér að umtalsefni en er allt að einu vert að nefna, það er að stóra innviðaátakið á að takmarkast við 16,5 milljarða samanlagt, 5,5 milljarða á ári í þrjú ár, til viðbótar við það sem ella hefði verið. Þá vita menn um merkingu hugtaka hér, þetta stóra innviðaátak á sem sagt að duga fyrir jarðgöngum af styttri gerðinni eins og segja má.

Ég vil leyfa mér að nefna það sömuleiðis varðandi þau áform sem eru þarna inn á milli og fyrirheit að ekki skal gert lítið úr góðum hug sem má gera ráð fyrir að þar standi að baki. En menn skulu vita að gjörla verður (Forseti hringir.) fylgst með því hvernig haldið verður á málum og fast gengið eftir því að staðið verði við það sem mætti reikna sem fyrirheit gagnvart þeim hópum sem höllustum fæti standa.