148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[13:23]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og ég get alveg fullvissað hv. þingmann um það að þegar kemur að netöryggismálum er það eitt sem hefur verið skilgreint sem ein okkar helsta ógn sem steðjar að okkur og mikilvægt að mæta henni og það er sérstaklega getið um það í þjóðaröryggisstefnunni.

Hv. þingmaður vísar í mikilvægi þess að vinna með Norðurlöndunum og þar erum við alveg hjartanlega sammála. Almennt séð, og það er ekki bara hvað þetta varðar, hefur áhugi allra Norðurlandanna aukist á að vinna saman þegar kemur að öryggis- og varnarmálum og við fögnum því og leggjum alveg sérstaka áherslu á það eins og ég fór lítillega yfir í ræðu minni.

Þetta kemur hins vegar náttúrlega að fleiri ráðuneytum en utanríkisráðuneytinu og þá vísa ég sérstaklega í dómsmálaráðuneytið og samgönguráðuneytið. Það voru nýverið mjög ánægjulegar niðurstöður, en líka nokkrar áhyggjur, þegar alþjóðleg stofnun veitti okkur viðurkenningu vegna þess hversu vel við erum tengd á Íslandi og útbreiðslan er mikil, en á sama tíma þegar kom að öryggismálunum vorum við ekki á þeim stað sem við viljum vera á. Úr því viljum við bæta. Þannig að þetta er tvenns konar, annars vegar er þetta samstillt átak allra þeirra aðila sem að þessum málum koma og síðan er það hið erlenda samstarf og ég get svo sem ekkert farið út í smáatriði önnur en þau sem hv. þingmaður leggur áherslu á. Það er verið að gera og hv. þingmaður vísaði sérstaklega í samstarf við Norðurlöndin og það er nokkuð sem við erum að leggja áherslu á og um það er samstaða á milli Norðurlandanna.