148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[13:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og það róar vissulega taugarnar aðeins vegna þess að þetta er eitthvað sem hefur tilhneigingu til, kannski ekki að gleymast en það hefur í gegnum tíðina ekki verið jafn fyrirferðarmikill hluti af varnarstefnu sem vitaskuld breytist mjög hratt núna þegar sér í lagi samskiptum Vesturlanda við Rússland virðast hnigna og það er miður, en það er eins og það er. Það gleður mig því mjög að hæstv. ráðherra segi að þetta sé helsta öryggisógn okkar vegna þess að ég tel svo vera, þetta sé sú ógn sem við séum í raun og veru berskjölduðust gagnvart, vegna þess að við erum landfræðilega umkringd bandamönnum, mjög sterkum bandamönnum. Hins vegar erum við á internetinu bara klesst upp við flest önnur ríki í heiminum.

Í því liggur munurinn og Íslendingar eru ekki vanir því að hugsa þannig. Við erum ekki vön því að hugsa að við séum nágrannar einhverra ríkja sem vilja okkur illt, bara mjög óvön því. Það þarf því aðeins nýjan hugsunarhátt og hefur þurft, en mér heyrist á svari hæstv. ráðherra að það sé þannig og ég fagna því sérstaklega að tekið sé eftir því og þó að við fáum hrós fyrir að vera vel tengd þá er það einmitt pínulítið tvíeggjað sverð vegna þess að það þýðir að við höfum í raun og veru byggt upp innviði okkar sérstaklega með tilliti til þess að við séum vel tengd og þegar innviðir nýta nýja tækni afskaplega mikið verða þeir mjög háðir þeirri tækni. Þannig að í því felst líka ákveðin ógn ef ekki eru til einhver plön B. Ég hef svo sem ekki fleiri spurningar fyrir hæstv. ráðherra nema hann kjósi að koma hingað aftur og bæta einhverju við, en þakka honum fyrir svarið og hef trú á því að þetta sé í réttum farvegi.