148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[13:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu. Við þurfum að vera mjög vakandi hvað þetta varðar. Netöryggisstefna fyrir Ísland var samþykkt árið 2015. Þá var sett á laggirnar netöryggisráð sem er leitt af fulltrúum samgönguráðuneytisins. Og til að bæta í það sem ég talaði um áðan þá eru það alþjóðastofnanir sem sinna netöryggismálum, þ.e. Atlantshafsbandalagið, ÖSE og Sameinuðu þjóðirnar. Gert hefur verið samkomulag um samstarf við netöryggisdeild innan Atlantshafsbandalagsins og það hefur leitt til frekari upplýsingasamskipta og um leið aukins öryggis okkur til handa. Það samkomulag hefur verið uppfært.

Ég er alveg sammála því þegar hv. þingmaður fer yfir þessi mál en maður gleymir samt einu, að við eigum líka mjög mikið undir því að þeir kaplar sem tengja okkur við umheiminn verði aldrei rofnir. Það er ein af þeim ógnunum sem við stöndum frammi fyrir. Ég veit ekki hvort við séum berskjölduð fyrir því, en hins vegar liggur alveg fyrir að það er eitt af því sem við þurfum að vera mjög vakandi yfir.

Ég veit að hv. þingmaður þekkir þessi mál mætavel og ég þakka bara hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu. Þetta er eitthvað sem við leggjum áherslu á en þurfum að vera mjög vel vakandi yfir og það er gott að eiga þingmanninn að í því.