148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[13:29]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ágætisyfirferð og reyndar hrósa honum og ráðuneytinu fyrir fallega skýrslu. Hún er vel upp sett og er myndræn, það auðveldar mikið lestur hennar. Við erum sammála um ýmislegt og annað ekki. Það eru vissulega mjög falleg markmið í skýrslunni sem ég deili svo sannarlega, þó að mér finnist ekki alltaf sjást þess merki í nýbirtri fjármálaáætlun hvernig ríkisstjórnin hyggst fylgja þeim eftir. Starf utanríkisráðherra er auðvitað spennandi og krefjandi verkefni, ekki síst núna þegar nútímatækni og viðskiptahættir hafa gert heiminn svo miklu minni en áður.

Mannkynið stendur frammi fyrir þremur risaáskorunum: Loftslagsmálum, fátækt og ófriði. Ég ætla að verja mestum tíma í að fjalla um þær í ræðunni enda snúast heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sem nefnd eru í skýrslunni, að miklu leyti um baráttu gegn þessum hlutum.

Fyrst aðeins um loftslagsvána: Í loftslagsmálum eigum við fyrst og fremst að ganga á undan með góðu fordæmi og uppfylla loftslagsskuldbindingar okkar og hveta til metnaðarfullrar lagasetningar og raunhæfrar sóknar í alþjóðlegu samstarfi. Dæmi um slíkt samevrópskt samstarf er reyndar innleiðing þriðja orkupakkans, sem nú bíður innleiðingar þingsins og stendur hugsanlega í einhverjum þingmönnum. Þar er um að ræða samevrópskt verkefni sem ætlað er að styðja skynsamlega, vistvæna og sjálfbæra orkunýtingu álfunnar.

Fátækt er áskorun númer tvö: Hún er bæði orsök og afleiðing þriðju ógnarinnar, ófriðar, og ólíklegt að við munum upplifa heimsfrið fyrr en hún hefur verið upprætt. Það er stórt áhyggjuefni að ójöfnuður fer vaxandi í heiminum. Í dag á ríkasta prósentið jafn mikið og hin 99% og ójöfnuður er sífellt að aukast. Það sama er í rauninni að gerast á Íslandi. Hér eiga t.d. 5% Íslendinga jafn miklar eignir og hin 95%. Það væri því ágætt framlag af Íslands hálfu til að ná heimsmarkmiðunum að ráðast gegn ójöfnuðinum hér heima. Því miður finnst mér fátt benda til þess í nýrri fjármálaáætlun, sem ýtir beinlínis undir áframhaldandi óheillaþróun að mati samtaka á borð við ASÍ, VR og ekki síst Öryrkjabandalagsins.

Stór hluti af okkar alþjóðlegu skuldbindingum til að ráðast gegn fátækt er með þróunarsamvinnu. Þar finnst mér ríkisstjórnin vera fullmetnaðarlaus. Vissulega vex krónutalan sem lögð er í samvinnuna með auknum þjóðartekjum en hækkun á framlaginu er þó langt frá því sem við værum fullsæmd af. Áform eru um að þau verði 0,35% í lok fimm ára fjármálaáætlunar og er langt frá því að Ísland nái markmiðum Sameinuðu þjóðanna sem leggja þær skyldur á herðar ríkustu og þróuðustu löndum í heimi, sem við erum blessunarlega á meðal, að veita 0,7% af þjóðartekjum í þróunarsamvinnu.

Ríkisstjórnin hefur einungis metnað til að ná helmingnum af því markmiði og það finnst mér fyrir neðan allar hellur. Nú, þegar vel árar, verjum við sama hlutfalli til þróunaraðstoðar og í miðri kreppu og ætlum svo sem að gera lítið betur næstu árin. Ég minni á að fyrir liggur þingsályktunartillaga frá 2013 sem var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum nema einu, um stóraukningu framlaga til málaflokksins. Þar ætlaði fólk sér að ná framlögunum upp á 0,4% árið 2019, en ríkisstjórnin gengur nú miklu skemur. Það veldur vissum vonbrigðum að VG, sem hefur einmitt talað mikið fyrir þessu máli, hafi gefið eftir jafn auðveldlega í stjórnarsáttmálanum og raun ber vitni. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort honum finnist ekki óþægilegt sem fulltrúi ríkrar þjóðar að réttlæta þessi lágu framlög fyrir kollegum sínum erlendis.

Loks er það ófriðurinn. Um afleiðingar hans þarf sennilega ekki að fjölyrða mikið. Þó að Íslendingar muni ekki leika afgerandi hlutverk í baráttu gegn honum berum við hins vegar mikla ábyrgð og getum beitt okkur með afgerandi hætti, ekki síst með mannúðar- og hjálparstarfi og áherslu á friðar- og jafnréttismál, eins og kemur ágætlega fram í skýrslunni. Í henni segir líka að með langvarandi stríðsátökum, ofbeldi og ofsóknum sem og margvíslega neikvæðum áhrifum náttúruhamfara á loftslagsbreytingar í heiminum, hafi þörfin fyrir mannúðaraðstoð og skipuleg viðbrögð aukist mikið.

Hér getum við og eigum, hæstv. ráðherra, að axla miklu meiri ábyrgð. Sérstaklega gagnvart fólki sem er í viðkvæmri stöðu og leitar alþjóðlegrar verndar, ekki síst börnum. Hér hefur mér reyndar fundist stappa nálægt hneyksli hvernig hæstv. dómsmálaráðherra hefur hunsað fullkomlega vilja Alþingis frá því í haust og þrengt að þessum hópi með nýrri reglugerð.

Herra forseti. Fyrstu tvær áskoranirnar, loftslagsógnin og fátæktin, eru erfiðar viðureignar, en á hvorugri munum við sigrast ef ekki næst árangur í baráttunni gegn þeirri þriðju, sem er ófriðurinn. Það gerir okkur reyndar ekki auðveldara fyrir að ótal öfl, stjórnmálaleiðtogar og jafnvel almenningur í þessum heimshluta, telja sig hafa hag af því að draga upp svart/hvíta mynd af veröldinni. Það eru líka háværar raddir á Íslandi sem ala á fordómum, ýta undir þjóðernishyggju, vilja draga landið inn í skel og loka sig frá umheiminum, ala á tortryggni, ótta, dreifa falsfréttum og flagga svo vaxandi fylgi svipaðra öfgahreyfinga í þessum heimshluta. Við getum auðvitað alveg valið um þannig heim sem byggir á flokkun og aðgreiningu, öflugum landamærum þar sem hver er sjálfum sér næstur, eða auknum samskiptum, samvinnu þar sem fólk freistar þess að taka ábyrgð hvert á öðru. Fyrri kosturinn mun aðeins leiða til meiri spennu og misskiptingar, en í þeim seinni birtist þó a.m.k. von um betri heim.

Það er því að mínu mati ekki í boði, ef vel á að fara, annað en að ástunda framsækna, opna utanríkispólitík þar sem höfuðáhersla er lögð á mikla samvinnu og viðskipti við aðrar þjóðir. Ég hvet hæstv. ráðherra áfram í þeim efnum. Við getum í sjálfu sér gert það í varnar- og öryggismálum og með því að efla frjáls heimsviðskipti, en ekki síður, eins og ég talaði um áðan, með því að axla okkar hluta af þeirri sameiginlegu ábyrgð sem við berum öll gagnvart hvert öðru.

Þá vitum við líka að mannkynið stendur frammi fyrir gríðarlegri stafrænni tæknibyltingu sem mun gjörbreyta samfélaginu og innan fárra áratuga verður þátttaka mannsins í samfélaginu með allt öðrum hætti en við höfum áður þekkt. Í því felast mikil tækifæri. Við getum aukið framleiðni, möguleikar skapast til miklu vistvænni framleiðslu en áður, sem er nauðsynlegt mótspil við loftslagsógninni. Og síðast en ekki síst gæti hún nýst til þess að jafna stöðu fátækari og ríkari hluta heimsins. Tæknibyltingin er sem sagt öflugt verkfæri til að ná fram heimsmarkmiðunum. Þeim breytingum fylgja þó líka ógnir ef við höldum ekki vel á spöðunum, ekki síst ef auðurinn og völdin flytjast á enn færri hendur og ágóðinn af tæknibyltingunni verður allur eftir hjá auðmagninu og fyrirtækjunum.

Herra forseti. Í skýrslunni er vissulega fjallað mikið um mikilvægi þess að halda vel utan um EES-samninginn og tryggja hagsmuni okkar gagnvart Bretum með útgöngu úr ESB. Það á auðvitað líka við um viðskipti við allar aðrar þjóðir. Ég verð að segja að það veldur mér auðvitað vonbrigðum og kemur kannski engum á óvart hvað stjórnarflokkarnir þrír eru fullkomlega samstiga um að hunsa það að skoða kosti þess að Ísland haldi áfram aðildarviðræðum við ESB og afgreiði það bara með einni setningu. Aðild að ESB getur verið aðgangur að stærri og stöðugri gjaldmiðli með lægra vaxtastigi en við erum vön. Í því getur falist mikil lífskjarasókn fyrir heimilin, auk þess sem það myndi stórbæta rekstrarumhverfi fyrirtækja, ekki síst á sviði nýsköpunar, sem verða að leika miklu stærra hlutverk í hagkerfi okkar í framtíðinni. Þá væru líka verkefni, samfara fjölgun ferðamanna, fyrst og fremst tengd uppbyggingu innviða, mögulegri ofbeit og áskorun um að taka vel á móti þeim, í stað þess að of mikil styrking krónunnar gæti auðveldlega sett hefðbundnar útflutningsgreinar í vanda.

Það er auðvitað rétt að rifja upp að í gegnum EES-samninginn tökum við upp meiri hluta af öllum þeim reglum og tilskipunum sem frá ESB koma, en við höfum þó sáralítið að segja um hvers eðlis þær eru og ráðum stundum illa við að laga þær að íslenskum hagsmunum. Þetta búum við svo við án þess að njóta þess besta sem ESB gæti fært okkur, svo sem gengisstöðugleika, lægri vaxta o.s.frv. Svo ég haldi áfram að rifja það upp þá eru vextir á evrusvæðinu enn talsvert lægri en þeir eru hér. Þeir eru býsna þungur baggi fyrir heimilin í landinu, sérstaklega fyrir þá sem ekki ráða við íbúðakaup vegna hárra vaxta og eru fastir í fátæktargildru leigumarkaðar. Þar er leiga líka mörkuð af allt of háum vöxtum. Ég tel að upptaka evru myndi líka án efa auka stöðugleika helstu atvinnugreina okkar, eins og ég nefndi áðan, sem standa núna frammi fyrir auknum erfiðleikum í rekstri vegna sveiflu íslensku krónunnar og vegna hás gengis í augnablikinu.

Því miður er almenningur yfirleitt leiksoppurinn. Það er hann sem líður oftast fyrir þennan óstöðugleika. En að því slepptu hefur EES-samningurinn virkað ágætlega fyrir þau EFTA-ríki sem eiga aðild að honum sem og ESB. Um það held ég að menn séu almennt sammála. Við þekkjum auðvitað vandamálin sem voru með innleiðingu EES-samningsins fyrir litla þjóð. Þau fólust, eins og áður sagði, fyrst og fremst í að við höfðum lítinn mannafla og erum verr í stakk búin til að hafa áhrif á þá löggjöf sem hér er tekin upp á grundvelli hans.

Ég tel því skynsamlegar þær áherslur sem koma fram í skýrslunni og lúta að þessu, þ.e. að nýta þau margvíslegu tækifæri til að hafa áhrif á mótun nýrra EES-reglna með því að koma fyrr inn í ferlið og eiga samráð við önnur EFTA-ríki. Ég styð ráðherra í því. Við í Samfylkingunni höfum talið að það væri almenn samstaða um að breyta þurfi stjórnarskránni til að styrkja stoðir þessa mikilvæga samnings með því að þingið samþykkti nýtt ákvæði um alþjóðasamvinnu.

Svo að lokum, áður en ég yfirgef ESB, má ekki gleyma að innan vébanda þess hefðum við sjálfkrafa aðild að bestu viðskiptasamningum um heim allan, en með núverandi fyrirkomulagi erum við neydd til að dreifa kröftunum meira en ella. Það er erfitt fyrir lítið land. Þá eru loks ótalin fjöldamörg rök fyrir aðild að sambandinu og nánara samstarfi við aðrar þjóðir sem eru alls ekki léttvæg og allt of lítið er rætt um. Þar vil ég nefna sameiginlega sýn á mannréttindi, lýðræðismál, umhverfismál, friðarmál, flóttamannavandann, þróunaraðstoð, svo fátt eitt sé nefnt.

Þó að EES-samningurinn sé okkur lífsnauðsynlegur þurfum við líka að vera vakandi fyrir nýjum aðstæðum. Þá er nú komið að Bretlandi sem er á leið út úr sambandinu. Ég styð alla vinnu sem miðar að því að eiga góð samskipti við Bretland og tryggja hagsmuni okkar þar, en ég tel þó rétt að gera það sem mest í nánu samstarfi við hin ríkin sem standa utan ESB. Ég hvet ráðherra til þess að upplýsa þingið mjög vel um hvernig þeim viðræðum miðar. Í skýrslunni eru sett fram ágætismarkmið og ég hvet ráðherra aftur til þess að halda okkur upplýstum um stöðu mála.

Annars er í skýrslunni mjög margt gott, t.d. ýmislegt um stöðu og markmið Íslands í alþjóðasamfélaginu, eins og ráðherra hefur komið inn á. Hér hefur verið minnst á góð markmið þegar kemur að því að efla utanríkisviðskipti okkar. Eins eru sett fram mikilvæg markmið í öryggis- og varnarmálum, sem ég styð, og hlutir sem snerta auðlindir og umhverfi. Þá þurfum við að vera virkir þátttakendur á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og í málefnum norðurslóða og vinna áfram vel að innleiðingu og mótun þjóðaröryggisstefnu.

Loks verður að leggja mjög þunga og aukna áherslu á baráttu gegn hlýnun jarðar og vernd hafsins. Þar eigum við að vera í fararbroddi. Þar höfum við gengið fram með góðu fordæmi og verðum sjálf að stíga alvöruskref hér heima til að minnka útblástur og fylgja því eftir með alþjóðasamningum á alþjóðavettvangi.

Nú er þetta að verða búið. Ég ætla að loka þessu með samantekt og segja: Við þurfum að auka framlög til þróunaraðstoðar, við þurfum að taka á móti fleiri flóttamönnum, við þurfum að styrkja tengsl okkar við Breta en líka við Evrópusambandið, sama með hvaða hætti það samband verður í framtíðinni. Að lokum eigum við að láta þjóðina sjálfa ákveða för í stórpólitískum utanríkismálum. Hún ætti að ákveða með hvaða hætti aðildarviðræður við Evrópusambandið fara fram, þeim lýkur ekki með yfirlýsingu ráðherra á hverjum tíma.