148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[13:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra fyrir þessa ágætu skýrslu. Eins og fram hefur komið er skýrslan skemmtilega upp sett, það er margt í henni, fínar myndir og þess háttar, góðar upplýsingar.

Herra forseti. Mig langar að byrja á því að segja að það er svolítið erfitt að vera með svona stórt mál eins og utanríkismálin eru undir í umræðu í dag þegar við höfum öll verið á kafi í fjármálaáætluninni, haft lítinn tíma til að fara í gegnum þetta — þetta er þó nokkurt rit sem hér er til umræðu — og af ýmsum öðrum ástæðum líka. Ég held því að við þurfum að læra af þessu og gefa þessari skýrslu, þessari umræðu, annan stað og betri tíma næst. Við eigum að læra af þessu.

Skýrslan er að sjálfsögðu ágæt. Það er margt í henni sem maður getur tekið undir og annað sem maður er að velta fyrir sér. Þó hefur maður ekki fengið nægan tíma til að fara grundigt í gegnum þetta. Það mun örugglega kalla á það að við í utanríkismálanefnd munum eflaust vilja ræða ákveðna hluti betur og nánar og mögulega fara fram á umræðu o.s.frv. Það er bara eðlilegt eins og gengur hér í þinginu.

Ég er sammála hæstv. ráðherra um að það er mikilvægt að skoða utanríkismálin sem heild reglulega, skoða markmið, hvert við ætlum að stefna og þess háttar. Gerð var ágæt skýrsla í þá veru, margt af því rataði þar inn og margt eigum við að sjálfsögðu eftir að sjá.

Eitt ætla ég þó að segja í upphafi sem ég sakna, þ.e. að ég hefði viljað sjá meiri metnað lagðan í að styrkja þjónustuna sjálfa. Utanríkismál fá mjög lítinn hluta af útgjöldum ríkisins á hverjum tíma. Í raun finnst mér, bæði eftir að hafa verið þingmaður síðan 2009 og verið utanríkisráðherra, mjög sérstakt að við séum að setja svo litla fjármuni í hagsmunagæsluna erlendis. Ekki síst í ljósi þess að Ísland á mjög mikið og eiginlega allt undir því að vera í góðum samskiptum erlendis, vera að afla markaða. Við erum útflutningsþjóð, við erum með útflutningsdrifið hagkerfi, þar af leiðandi þurfum við að vera á tánum og vera með sterk sambönd erlendis. Sem betur fer höfum við haft mjög sterkt atvinnulíf. Atvinnulífið hefur sinnt þessu bærilega og vel, þar af leiðandi hefur þetta gengið býsna vel hjá okkur. En ég held að við getum gert betur. Okkar fámenna þjónusta er frábærlega vel mönnuð. Það er afbragðsfólk sem er að vinna daga og nætur að því að gæta að hagsmunum Íslendinga og íslenskra fyrirtækja úti um allar jarðir.

Eitt sem mig langar að nefna áður en ég fer í skýrsluna sjálfa er að það kom fram í umræðum í gær varðandi fjármálaáætlun að gert er ráð fyrir ákveðnum peningum varðandi framboð okkar til stjórnarsetu í UNESCO. Nú kann að vera að minnst sé á það í skýrslunni, ég á eftir að lesa það. En ég velti fyrir mér: Hvers vegna UNESCO? Mér finnst kannski vanta að segja okkur af hverju við erum að leggja áherslu á það.

Ég velti því fyrir mér hvort við ættum mögulega að leggja peninga í og áherslu á að tengjast meira samningnum um varnir gegn eyðimerkurmyndun. Það er gríðarlega mikilvægt mál, umhverfismál og loftslagsmál. Þar hafa Íslendingar mikið fram að færa. Í Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna, sem er hér hjá okkur, hefur fólk náð gríðarlega góðum árangri. Það er tekið eftir árangri Íslands og hvað við höfum gert. Gleymum því ekki að ekki fyrir svo margt löngu, fyrir ekki svo mörgum árum, var Ísland í raun stærsta eyðimörk Evrópu. Við höfum náð gríðarlegum árangri þar. Ég hefði kannski viljað sjá að við legðum áherslu á það. En eflaust eru ágæt rök fyrir UNESCO, ég ætla ekki að gera lítið úr því.

Það er mjög freistandi að fara inn í Evrópusambandsumræðuna. Ég ætla samt að neita mér um það. Ég held þó að ég og ráðherra séum algjörlega sammála um þá bölvuðu vitleysu alla saman. Þá er ég búinn að afgreiða það.

Varðandi skýrsluna ætla ég aðeins að hlaupa, tíminn hleypur frá okkur, í gegnum nokkur atriði. Strax á bls. 7 er réttilega talað um þessa skelfilegu árás í Bretlandi með efnavopnum. Það er rétt, öll utanríkismálanefnd stóð að baki og styður þá vegferð sem þar var farin. Það er hins vegar mikilvægt að það komi fram að eðlilega voru ýmsar spurningar uppi á fundi utanríkismálanefndar um málið, um sannanir og þess háttar. Ég efast ekki um að það eigi eftir að fylla upp í ákveðin göt þarna. Nú síðast sáum við að efnavopnastofnunin var að staðfesta tilurð þessa eiturs eða hvaðan það kemur, þannig að eflaust höfum við verið á réttri leið þarna.

Á bls. 8 er talað um utanríkisþjónustu til framtíðar og farið ágætlega í gegnum þá skýrslu og breytingarnar þar.

Það kemur fram neðarlega að á þróunarsamvinnuskrifstofu hefur ný deild fyrir atvinnulíf tekið til starfa, atvinnulíf og svæðasamvinnu. Það væri mjög freistandi einhvern tímann í framtíðinni að við fengjum að vita aðeins meira um þetta, hvað þessi nýja deild á nákvæmlega að gera, hvernig hún er hugsuð til framtíðar o.s.frv., deild fyrir atvinnulíf og svæðasamvinnu.

Á sömu blaðsíðu er rætt um að starfsemi Íslensku friðargæslunnar verði efld með því að færa hana inn í varnarmálaskrifstofu. Ég held að það sé ágætismál, það er freistandi að velta fyrir sér hvað samstarfsflokkunum finnst um það.

Á bls. 9 er talað um heimasendiherrana. Það eru ágæt rök fyrir því. Ég hef aðeins saknað þess og hef áður velt því upp við hæstv. ráðherra hver kostnaðurinn af þessari breytingu, að færa þessa vinnu heim, getur orðið. Mér finnst ekki sjálfgefið að þetta sé til hagræðingar, en það kann þó að vera, ég ætla ekki að neita því.

Á sömu blaðsíðu er talað um sendiskrifstofu sem er verið að loka. Mér þykir leitt að sjá að það er verið að loka í Vín, en úr því að sú leið var farin að hagræða með þessum hætti er það líklega skásti kosturinn. En á sama tíma erum við í forystu í einni af aðalstofnunum ÖSE, ODIHR, þannig að þetta rekst kannski aðeins á. En ég veit að við verðum með öflugt starfsfólk þarna og sér í lagi með mjög öflugan aðalmann þar. Ég kvíði því í sjálfu sér ekki.

Hér er ágætlega farið yfir þróunina í framlögum til utanríkisþjónustunnar, þ.e. sendiskrifstofa og aðalskrifstofu. Ég stóð í þeirri meiningu að við myndum þegar betur áraði fara að bæta þar í, en kannski kemur það síðar.

Varnar- og öryggismál: Ég ætla ekkert að fara í það í þetta skiptið, held ég. Ég held að það sé ágætt að halda vel á málum og mér sýnist ráðherra með mjög góða stefnu í því öllu saman.

Á bls. 11 er talað um EES-mál. Þar stendur um miðja síðu, rétt eftir að EES-kaflinn byrjar, með leyfi forseta:

„Lykillinn að árangursríkri hagsmunagæslu við mótun löggjafar innan Evrópska efnahagssvæðisins er að koma sjónarmiðum Íslands að snemma í ferlinu. Mikils átaks er þörf í þessum efnum.“

Ég held að við getum öll verið sammála um þetta. Það sem ég velti fyrir mér, af því að nú er maður búinn að tala um þetta og reyna í svolítinn tíma, er hvort eitthvað nýtt er uppi á borðinu. Hvernig ætlum við að gera þetta og hvað kostar þetta? Ég hef alltaf staðið í þeirri meiningu að í raun væri best að geta bætt í mannskap þarna úti til þess að geta fylgst betur með, tekið þátt í meiri undirbúningi og þess háttar, en því myndi að sjálfsögðu fylgja aukinn kostnaður. Þannig að ég velti fyrir mér hvernig við ætlum að gera þetta. (Gripið fram í.) Það er ýmislegt sem mun koma út úr mér í þessari ræðu, ég er ekkert endilega að óska eftir að ráðherra svari öllu hér strax á eftir í ræðu eða andsvörum, alls ekki, heldur munum við eflaust taka umræðu um þetta bæði í nefndinni og síðar.

Á bls. 12 erum við að ræða þróunarmálin. Þar er talað um atvinnulíf og þátttöku í þróunarstarfi og ákall alþjóðasamfélagsins, að hvetja til fjárfestinga og viðskipta og skilaboðin frá ráðstefnunni í Addis Ababa 2015. Ég tek alveg undir þetta. Það er mikilvægt að reyna að ná meiru fram, við getum raunverulega bætt í og gert betur í þróunarsamvinnu í samvinnu við atvinnulífið. Það er hins vegar mikilvægt að við gerum það á heiðarlegan og gagnsæjan hátt. Mér hefur stundum þótt sum lönd býsna frökk í því að vera í mikilli þróunarsamvinnu en um leið kannski að gera samninga um að bora eftir olíu, eitthvað þess háttar. Maður veltir fyrir sér umhverfismálum og öðru slíku. En ég treysti alveg ráðherra til þess að útfæra þetta. Spurning hvað einum samstarfsflokknum finnst um þetta, ég veit það ekki.

Ég nefndi hér eyðimerkursamninginn bara sem dæmi um að þar eru mikil sóknarfæri fyrir íslenska kunnáttu og þekkingu.

Ég ætla að hlaupa hér yfir stóra kafla í þessu.

Við komum svo að Brexit, sem er vitanlega eitt stærsta málið sem er á dagskrá í dag. Brexit er að mörgu leyti mikið lærdómsferli fyrir marga, það er lærdómsferli fyrir þá sem einhvern tímann hefur dottið í hug að ganga í Evrópusambandið. Það er lærdómsferli fyrir ríki innan Evrópusambandsins, hvað gerist ef þeim snýst hugur. Það ætti að vera lærdómsferli fyrir Evrópusambandið.

Ég hef þess vegna verið mjög hissa á þeim viðbrögðum sem komu frá Evrópusambandinu á sínum tíma, þ.e. að gera Bretum þetta eins erfitt og mögulegt var. Ég held að þau viðbrögð og hvernig Evrópusambandið eða embættismenn þar nálgast vandamál sé í raun fordæmalaust. Í stað þess að vinna með Bretum og reyna að gera þetta á sem bestan hátt til að sýna fram á að Evrópusambandið er lýðræðislegt, virðir lýðræði, er allt gert til að gera þeim þetta erfitt. Hvaða skilaboð eru það til ríkja sem vilja mögulega ganga þarna inn, eða ríkja sem eru í Evrópusambandinu? Þetta eru kolröng skilaboð. Skilaboð um ofbeldi, skilaboð um þvinganir og einhvers konar hræðsla, held ég, við að sambandið kunni að liðast í sundur. Ég held reyndar ekki að það gerist. Evrópusambandið liðast ekkert í sundur, en það þarf að breytast innan frá. Það þarf að líta í eigin barm og það þarf að breytast.

Á bls. 68, í liðnum Skipulag Brexit-vinnunnar, segir, með leyfi forseta:

„Einnig þarf sífellt að endurmeta markmið Íslands í ljósi framvindu viðræðna á milli Bretlands og ESB.“

Í þessum kafla er verið að ræða um greiningarvinnu, vinnuhópa og hér segir, með leyfi forseta:

„Þá hafa vinnuhóparnir haldið áfram greiningarvinnu sinni sem miðar að því að skila helstu markmiðum og forgangsröðun samningsatriða þegar kemur að fyrirkomulagi framtíðarviðskipta Íslands og Bretlands.“

Þetta er allt fínt og flott. En ég er að velta fyrir mér hvort við þurfum að endurmeta markmiðin. Það er kannski eitthvað sem ég myndi vilja fá skýringu á. En þurfum við ekki frekar að endurmeta nálgunina, hvernig við nálgumst markmiðin, hvernig við komumst í endamark? Hvort það verður á vettvangi tvíhliða viðræðna, hvort það verður á vettvangi EFTA-ríkjanna, eða hvar — ég er aðeins hræddur við þá hugsun að menn séu að endurmeta markmiðin sem við stefnum að því að ná í viðræðum við Breta væntanlega. Ætlum við að ákveða að það séu einhver markmið sem við ætlum að forðast eða eitthvað slíkt? Erum við ekki bara með markmið og svo náum við þeim eða náum þeim ekki? Við ætlum ekkert að vera að hræra í markmiðunum. Það hefði ég haldið.

Ég ætla líka að leyfa mér að vara við — af því að ég man eftir því úr skýrslu hæstv. ráðherra frá því í fyrra, ég hnaut um það þá — ótta við Evrópusambandið í þessum viðræðum Íslands gagnvart Bretum. Sú setning er ekki hér inni núna. Ég er mjög ánægður með það. Ég held að við eigum að passa okkur á því að gera þetta út frá okkar eigin forsendum, en að sjálfsögðu með það í huga að við séum í góðu sambandi við sem flesta. En við látum ekki aðra stjórna hagsmunabaráttu okkar. Ég veit að ráðherra er örugglega sammála mér um það.

Þróunarsamvinnan er vitanlega mjög stór þáttur í starfsemi utanríkisþjónustunnar. Mikið og gott starf fer þar fram. Ákveðnar breytingar hafa verið gerðar á undanförnum árum á þróunarsamvinnu sem ég held að hafi verið til mikilla bóta. Áfram þurfum við að vinna að þessum málaflokki. Við þurfum áfram að axla ábyrgð eins og við höfum verið að gera. Mér sýnist þó að sú hækkun fjárframlaga sem m.a. er boðuð í fjármálaáætlun — ég kom aðeins inn á það í gær — sé fyrst og fremst vegna skuldbindinga. En allt á þetta vitanlega eftir að skýrast.

Ég vil hins vegar þakka ráðherra fyrir þessa skýrslu. Það er eflaust eitthvað þarna sem hefur farið fram hjá manni á þessum morgni sem ég hef haft til að fara í gegnum þetta almennilega. Eflaust eiga eftir að koma upp vangaveltur þegar maður fer betur í gegnum þetta, hvað það er sem við viljum bæta og þess háttar. Það er mjög mikilvægt að Ísland og ráðherrann og ráðuneytið haldi áfram að berjast fyrir hagsmunum Íslands sem eru gríðarlega mikilvægir þegar kemur að samskiptum við erlend ríki, hvort sem það eru efnahagslegir hagsmunir, öryggishagsmunir, umhverfishagsmunir, allt tengist þetta nú. En við eigum vitanlega að gera það allt á okkar eigin forsendum. Það er bara einfaldlega þannig.

Sáttmálar og samningar sem eru brotnir — við hljótum alltaf að mótmæla því. Við hljótum að leggja höfuðáherslu á að lítil fullvalda frjáls ríki geti verið það áfram án þess að þurfa að lifa í ógn eða ótta við að á rétt þeirra sé gengið. Ég held að um það hljótum við öll að geta verið sammála. Okkur getur hins vegar greint á um ákveðnar aðgerðir eða ákveðnar leiðir að þessu öllu saman, en markmiðin hljóta alltaf að vera þau sömu, kannski er sýnin á það hvernig við komumst þangað misjöfn.