148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[16:10]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Þetta er hárrétt hjá hv. þingmanni, það er búið að halda burtu öðrum upplýsingum varðandi ESB-gerðirnar sem við tökum inn í gegnum EES-samninginn. Af hverju er það gert? Það gera alla jafna þeir sem vilja ganga í ESB, það er til að koma þeirri tilfinningu inn að við þurfum hvort eð er að ganga inn af því að við tökum svo mikið upp. Þetta er ljótur leikur og grefur undan EES-samningnum. Maður gæti ætlað að það ætti að vera nógu góð samstaða um EES-samninginn, raunveruleg samstaða, alla leið en það þýðir ekki að við þurfum ekki að gæta okkar hagsmuna.

Það er áhyggjuefni sem kemur fram í fylgiskjali 3 í skýrslunni um hagsmunagæslu okkar varðandi EES hvað tæknilegum reglugerðum og stöðlum, prófunum og vottunum er að fjölga. Þetta er orðið gríðarlega hátt hlutfall. Oft eru þetta tæknilegar viðskiptahindranir og það mun koma niður á þjóð eins og okkar.

Við þurfum að vera vakandi og taka málefnalega umræðu út frá staðreyndum. Mér finnst umræðan hér í dag hafa verið góð þótt hún hafi aðeins dottið í persónulegar aðdróttanir en það er bara eins og gengur. Það var a.m.k. lágt hlutfall.

Varðandi fríverslunarsamningana og loftferðasamningana er núna búið að ná loftferðasamningum við Indland. Við Íslendingar byrjum flug þangað í desember. EFTA er með mörg járn í eldinum og við höfum lengi verið að reyna að ná samningum við Indverja en ég veit ekki hversu vel það mun ganga. Svo eru Indónesía, Mercosur í Suður-Ameríku, Víetnam og fleiri staðir. Við erum líka að reyna að ná fríverslunarsamningum við Japan, svo dæmi sé tekið, og EFTA er auðvitað líka með Kanada.

Það er mikilvægt að ræða þetta í hörgul og að fólk sé upplýst, ekki síst í hv. utanríkismálanefnd, um þær áherslur sem við erum með og hvaða áherslur önnur EFTA-ríki eru með. Við erum án nokkurs vafa með fæstar rauðar línur miðað við þær þjóðir og þykja þær frjálslyndar þegar kemur að fríverslun. Við þurfum að nýta þessi tækifæri. Nú er þetta orðið þannig að loftferðasamningar geta jafnvel haft meiri jákvæð áhrif á viðskipti en fríverslunarsamningar þannig að við þurfum að ræða þetta allt saman í samhengi. Ég vonast til þess að (Forseti hringir.) hv. formaður utanríkismálanefndar gefi mér tækifæri til að ræða það við nefndina.