148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[15:08]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Ég vil nota tækifærið og taka undir með þeim sem hafa talað hér á undan. Þetta er óþægilegt fyrir alla, ekki síst óþægilegt fyrir fámenna þingflokka sem þurfa að leggja töluvert hart að sér til að skipuleggja vinnu sína, öllum til gagns, að verið sé að þvæla með það fram og til baka með mjög litlum fyrirvara hvaða hæstv. ráðherrar sjá sér fært að vera hérna hverju sinni. Það hlýtur að vera hægt að hafa betri brag á þessu.

Annað sem mig langar til að spyrja virðulegan forseta um er hvernig stendur á því að samhliða því að skipan í bankaráð Seðlabankans og stjórn RÚV skuli vera tekin af dagskrá skuli vera felldur niður dagskrárliður um beiðni um skýrslu sem lýtur að vopnaflutningum, skýrslubeiðni til utanríkisráðherra. Ég átta mig ekki á hvaða þörf er á því að taka hana út af dagskrá í dag.