148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[15:23]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði bara að ítreka það sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson sagði. Skilningur minn var sá, og ég var á þingflokksformannafundinum í síðustu viku, að málin í síðustu viku myndu færast yfir á þennan dag ef þau myndu ekki klárast þá. En þau kláruðust í síðustu viku. Það var alla vega skilningur minn og greinilega fleiri.

Það er einhvern veginn lenska að gera lítið úr fólki. Ég upplifði það reyndar ekki á þessum tiltekna fundi, en það er lenska að gera lítið úr svona umkvörtunum stjórnarandstöðunnar eins og þetta sé einhvern veginn henni að kenna, eins og hún hefði átt að gera eitthvað annað, samanber það sem forseti nefndi hérna áðan, að kannski hefðu þingflokksformenn verið of uppteknir við að undirbúa skemmtanahaldið síðasta föstudag.

Ég vil gera athugasemd við þau orð, virðulegi forseti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Mér finnst ekki við hæfi að forseti sé að senda einhverjar pillur til þingmanna um að þeir séu að undirbúa sig fyrir skemmtanahald, þess vegna fylgist þeir ekki með póstinum sínum og þess vegna viti þeir ekki hvað sé í gangi á þessum þingfundi. Ég skoðaði þennan póst. Það er ekkert í honum um þetta. Það þýðir ekki að kasta sífellt ábyrgðinni á aðra þingmenn, hvað þá stjórnarandstöðuna. Það er ekki eins og við séum að búa (Forseti hringir.) þetta til. Hér er búið að bera fram lausnina. Hún er mjög einföld: Hafa þetta skriflegt. Af hverju geta allar stofnanir samfélagsins gert það nema þessi? Hvað er að, virðulegi forseti? Af hverju þarf þetta að vera svona? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)