148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

leiguíbúðir eldri borgara í Boðaþingi.

[15:45]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Bara til að undirstrika það sem ég sagði áðan þá kalla þessar fréttir og sambærilegar fréttir sem koma oft og tíðum ekki fram í fjölmiðlum, á að sest sé yfir þessi mál. Ég vil segja að ég hef þegar boðað ákveðna leigusala, þessa stærstu, til mín á fund, sem getur vonandi orðið fljótlega, (Gripið fram í.) til þess að ræða það hverjar leikreglurnar eru á þessum markaði og hvort ekki sé ástæða til þess að menn fari aðeins að gæta að félagslegum sjónarmiðum í því efni.

Ég vil líka bæta við, eftir þær fréttir sem borist hafa af því máli sem hv. þingmaður nefnir hér, að ég hef líka tilkynnt þeim leigusölum sem þarna eiga í hlut að ég hyggist boða þá á fund til að fara yfir þetta einstaka mál og önnur sambærileg mál. Ég vil bara segja að ég held að sú staða sem er á leigumarkaði í dag á Íslandi kalli á að stjórnvöld verði tilbúin til þess að skoða þessi mál betur, enda vantar oft og tíðum svolítið félagslegu taugina í þetta.