148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[19:09]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er með mikilli ánægju að ég mæli nú fyrir tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024.

Tillagan hefur verið í undirbúningi í allnokkurn tíma og víðtækt samráð um allt land er að baki. Upphafið má rekja til þess að í júní 2015 samþykkti Alþingi ný lög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, nr. 69/2015. Markmið laganna er að efla byggðaþróun og auka samráð milli ráðuneyta á sviði byggðamála, innan hvers landshluta og milli stjórnsýslustiga, jafnframt því að færa til sveitarstjórna aukna ábyrgð á sviði byggða- og samfélagsþróunar. Byggðaáætlun skal samkvæmt lögunum lýsa stefnu ríkisins í byggðamálum hverju sinni og samhæfingu við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Þar segir, með leyfi forseta:

„Byggðaáætlun skal hafa að meginmarkmiði að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Sérstaka áherslu skal leggja á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf.“

Í kjölfar setningar laganna hófst undirbúningur að mótun nýrrar byggðaáætlunar. Með bréfi, dags. 9. mars 2016, fól ráðherra Byggðastofnun formlega að vinna byggðaáætlun samkvæmt hinum nýju lögum.

Af hálfu Byggðastofnunar var lögð áhersla á opinn mótunarferil. Leitað var eftir viðhorfum til þess hvernig byggðaáætlun væri best unnin eftir nýjum lögum sem og hvernig samspilið ætti að vera við sóknaráætlanir landshlutanna og áætlanir ráðuneyta. Í janúar 2016, áður en hin eiginlega vinna við mótun nýrrar byggðaáætlunar hófst, var þingflokkum boðið til fundar í Reykjavík þar sem leitað var eftir áherslum þeirra í byggðamálum. Sérstakir fundir voru skipulagðir með ráðuneytum, stýrihópi Stjórnarráðsins um byggðamál og fleiri aðilum. Þá fundaði Byggðastofnun tvisvar með samráðsvettvöngum landshlutasamtakanna átta, hverjum fyrir sig, en þeir eru skipaðir nokkrum tugum einstaklinga úr öllum geirum og svæðum hvers landshluta og móta sóknaráætlanir þeirra. Opið samráð var viðhaft á vefsíðu Byggðastofnunar þar sem gögnin voru aðgengileg og allir gátu lagt fram tillögur, ábendingar og athugasemdir. Til þess að fá ytri rýni á byggðaþróun var Framtíðarsetur Íslands fengið til að greina sviðsmyndir fyrir búsetuþróun á landinu til ársins 2030 og voru niðurstöður þessar kynntar á opnum fundi 27. september 2016. Jafnframt fór Byggðastofnun yfir 93 opinber stefnuskjöl og áætlanir með tilliti til samhæfingar. Að auki var öllum ráðuneytum send skrá til útfyllingar fyrir fundina um mótun byggðaáætlunar. Beðið var um að skráðar yrðu þær áætlanir hvers ráðuneytis sem leiddu að markmiðum byggðaáætlunar. Í úrvinnslu beindist athyglin sérstaklega að þeim aðgerðum í áætlunum ráðuneyta sem lögð var á áhersla á samráðsfundum í landshlutunum.

Drögum að nýrri byggðaáætlun var skilað til ráðherra í janúar 2017 eða um það leyti sem byggðamál voru færð í nýtt ráðuneyti samgöngu- og sveitarstjórna. Haustið 2017 var skipaður verkefnishópur fulltrúa allra skrifstofa samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, Byggðastofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga til að fullvinna drög Byggðastofnunar. Sú vinna fór fram í nánu samráði við einstök ráðuneyti og stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál. Drög að tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024 voru kynnt í ríkisstjórn 2. mars 2018 og í kjölfarið send til umsagnar í öllum ráðuneytum og í framhaldinu í samráðsgátt Stjórnarráðsins þann 12. mars. Alls bárust 25 umsagnir sem hafa verið yfirfarnar og tekið tillit til þeirra eftir því sem kostur er.

Hæstv. forseti. Það er vert að koma hér á framfæri þakklæti til allra þeirra sem komið hafa að þessum undirbúningi og samráðsferlinu. Þeirra framlag er mikilvægt fyrir gildi og inntak áætlunarinnar. Eins vil ég lýsa sérstakri ánægju með hversu margar efnisríkar og ítarlegar umsagnir bárust þegar tillagan var til kynningar í marsmánuði sl. á samráðsgátt Stjórnarráðsins. Í mínum huga staðfesta þær að miklar væntingar eru bundnar við að við náum árangri á þessu sviði.

Byggðaáætlun er mikilvægt tæki fyrir stjórnvöld á hverjum tíma til að hafa áhrif á framgang og móta stefnu í byggðamálum fyrir landið í heild og einstök svæði. Þannig hefur byggðaáætlun verið unnin og samþykkt á Alþingi sem þingsályktun allt frá árinu 1994. Ríkisstjórnin hefur mikinn metnað í byggðamálum. Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar ber það með sér og áform einstakra ráðherra sem m.a. birtast í fjármálaáætlun til næstu ára. Við teljum mikil verðmæti felast í því að landið allt sé í blómlegri byggð. Landsmenn eiga að hafa jafnan aðgang að þjónustu, atvinnutækifærum og lífskjörum um land allt. Við viljum að Ísland verði í fararbroddi með nútímainnviði, framsækna þjónustu, verðmætasköpun, jöfn lífsgæði og öflug sveitarfélög sem geta annast staðbundin verkefni og veitt íbúum hagkvæma og góða þjónustu með markmið sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi. Grunnþjónusta verði veitt íbúum sem mest í nærsamfélagi. Á höfuðborgarsvæðinu verði miðstöð opinberrar stjórnsýslu og miðlægrar þjónustu sem allir landsmenn hafa gott aðgengi að. Byggðamál verði samþætt við aðra málaflokka eftir því sem við á. Þá verði áhrif á þróun einstakra byggða og búsetu skoðuð og metin í allri stefnumörkun og áætlanagerð hins opinbera.

Ég lít svo á að helstu viðfangsefni á sviði byggðamála næstu árin verði að takast á við fækkun íbúa á einstökum svæðum, einhæft atvinnulíf, tæknibreytingar og þróun og aðlögun er varðar einstakar atvinnugreinar. Þá þurfum við einnig að tryggja greiðar samgöngur og aðgengi að þjónustu. Ég tel mikilvægt að lögð verði sérstök áhersla á svæði sem standa höllum fæti í þessu samhengi. Þannig stuðlum við að blómlegum byggðum um land allt.

Hæstv. forseti. Byggðaáætlun er nú sett fram í fyrsta skipti með skýrum markmiðum og mælikvörðum. Markmiðin eru þrenns konar.

1. Jafna aðgengi að þjónustu. Það getur m.a. falið í sér að grunnþjónusta sé veitt sem mest í nærsamfélaginu og greiðu aðgengi að miðlægri þjónustu í einstökum landshlutum og á landinu öllu.

2. Jafna tækifæri til atvinnu. Það felur m.a. í sér bætta innviði svo sem fjarskipti, samgöngur og öryggi í raforkumálum sem grundvöll fyrir fjölbreytt atvinnutækifæri.

3. Stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land. Það felur m.a. í sér að til séu öflug sveitarfélög með þjónustukjarna, gott aðgengi að menntun, fjölbreyttu atvinnulífi, öflugri starfsemi í menningarmálum og loks afþreyingu.

Skilgreindir eru mælikvarðar sem stuðst verður við til að meta árangur og framgang áætlunarinnar. Meðal mælikvarða er hlutfall heimila og fyrirtækja í dreifbýli með aðgang að ljósleiðaratengingu, hlutfall þeirra sem eru í innan við 30 kílómetra fjarlægð frá heilsugæslustöð, grunnskóla, dagvöruverslun og framfærsluhlutfall. Staða þessara þátta verður metin við upphaf byggðaáætlunar og reglulega fylgst með því hvernig mælingar breytast á gildistíma áætlunarinnar.

Byggðaáætlun setur fram margvíslegar áherslur og aðgerðir sem ætlað er að stuðla að því að markmiðum hennar verði náð. Aðgerðirnar eru alls 54 og eiga öll ráðuneyti beina eða óbeina aðild að framkvæmd þeirra. Þannig er leitast við að tryggja samþættingu byggðaáætlunar við sem flest málefnasvið og áætlanir ríkisins. Aðgerðirnar varða einnig margvísleg viðfangsefni sveitarfélaga sem einnig hafa mikil áhrif á það hvernig okkur tekst til að hrinda þessari metnaðarfullu byggðaáætlun í framkvæmd.

Vert er að þakka sveitarfélögum, landshlutasamtökum þeirra og Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir mikilvægt framlag við að móta þessa áætlun.

Ég vil að endingu gera stuttlega grein fyrir því hvernig við hyggjumst tryggja samþættingu byggðaáætlunar við aðrar stefnur og áætlanir. Það er mikilvægt að náið samráð sé milli ráðuneyta, stofnana ríkisins, sveitarfélaga, atvinnulífs og borgarasamfélags við framkvæmd byggðastefnu. Meðal aðgerða sem horft verður til í því sambandi eru eftirfarandi:

Reglulega fari fram umræða á vettvangi ríkisstjórnarinnar um stöðu og framkvæmd byggðaáætlunar og tækifæri til samþættingar.

Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál verði efldur.

Þjónustukort sýni aðgengi landsmanna að opinberri þjónustu og útbúið verði mælaborð sem varpi ljósi á stöðu og framvindu byggðamála.

Náið og gott samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaganna.

Tryggð verði regluleg skýrslugjöf til Alþingis.

Að lokum: Fram fari kerfisbundin miðlun upplýsinga, rannsóknir, fræðsla og alþjóðlegur samanburður.

Ég legg áherslu á að við framkvæmd laga um opinber fjármál verði fjallað sérstaklega um byggðasjónarmið í tengslum við mótun og framlagningu fjármálaáætlunar og fjárlaga hvers árs. Það er mikilvægt að við setjum öll upp byggðagleraugun þegar við rýnum áform okkar og forgangsröðum fjárveitingum. Fjármögnun aðgerða er ýmist borin uppi af byggðaáætlun, t.d. verkefnið Brothættar byggðir, samfjármagnaðar af byggðaáætlun og fjárheimildum viðkomandi málaflokks, þar má nefna verkefnið Ísland ljóstengt, þ.e. árið 2020, eða alfarið fjármagnaðar af viðkomandi málaflokki, sem dæmi má nefna verkefni um smávirkjanir. Fjármögnun byggðaáætlunar ræðst af fjárheimildum hvers árs, en tillaga að fjármögnun úr byggðaáætlun við hverja aðgerð tekur mið af fjármálaáætlun.

Heildarfjármögnun á byggðalið fjárlaga er því ríflega 4 milljarðar fyrir þetta sjö ára tímabil. Heildarkostnaður allra aðgerða liggur ekki fyrir. Það mun bæði ráðast af fjárheimildum fjárlaga hverju sinni og nánara kostnaðarmati sem gert verður í tengslum við verkefnisáætlun fyrir hverja aðgerð. Það sama á að sjálfsögðu við um fjármögnun aðgerða af byggðaáætlun.

Virðulegi forseti. Ég hef nú rakið helstu útlínur að tillögu til þingsályktunar um byggðamál 2018–2024. Ég er ánægður með það plagg sem ég legg hér fyrir hið háa Alþingi til frekari umræðu og endanlegrar afgreiðslu. Það er mikið samráð að baki, margir hafa lagt hönd á plóg. Þannig viljum við vinna. Það mun skila árangri, ekki síst á sviði byggðamála.

Ég legg því til að þingsályktunartillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og síðari umræðu.