148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[19:24]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á í inngangi eða í framsögu minni tel ég mikilvægt að þegar við erum að framkvæma þessa stefnu þurfi menn að setja byggðarýnigleraugun á sig mun oftar en menn hafa gert. Það á auðvitað sérstaklega við um öll ráðuneytin, ekki bara það ráðuneyti sem fer með byggðamál, en það gildir þá líka um stofnanir. Og það gildir líka um Alþingi. Þess vegna er hugmynd hv. þingmanns um að þegar við erum að fjalla um einstök mál sem geta á einhvern hátt tengst því hvort þau hafa mismunandi áhrif á byggðir landsins, þá held ég að það sé skynsamlegt við framlagningu þeirra að á það sé bent. Og síðan við úrvinnslu Alþingis að kalla eftir slíkum upplýsingum til þess að tryggja að við nýtum okkur þetta tæki sem þetta er, þessa metnaðarfullu áætlun, því að hún mun auðvitað ekki skila árangri ef við vinnum ekki eftir henni og notum hvert tækifæri til þess að setja byggðarýnigleraugun á nefið.