148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[19:31]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Reyndar voru þetta fjölmargar spurningar sem ég næ örugglega ekki að svara öllum á tveimur mínútum.

Varðandi fjármögnunina þá er verið að setja aukið fjármagn í byggðaáætlun og hluti af þeim 54, ekki hundruð heldur 54 aðgerðir sem þarna eru, er einmitt fjármagnaður beint af byggðaáætlunarliðnum. Í hann er búið að setja aukið fjármagn. Ég held að við getum verið með um 500 milljónir á yfirstandandi ári til slíkra aðgerða. Þær eru eyrnamerktar ákveðnum verkefnum. Í öðrum tilvikum er um að ræða samfjármögnun með öðrum, til að mynda fagráðuneytum. Ég get nefnt verkefnið Ísland ljóstengt, þar sem af byggðaliðnum er verið að setja 100 milljónir til stuðnings þeim byggðarlögum, sveitarfélögum, sem þurfa á frekari stuðningi að halda, hvort sem er vegna fámennis eða stærðar. Síðan geta líka verið verkefni sem eru fjármögnuð fyrst og fremst af viðkomandi ráðuneyti. Ég nefndi í ræðu minni smávirkjanir, það getur líka gilt um aðra hluti.

Varðandi fæðingar sem hv. þingmaður spurði um þá veit ég að hann á eftir að fara í gegnum þá umræðu við fagfólk sem við sem höfum setið á þingi fyrir Suðurland og úti í Vestmannaeyjum höfum margoft tekið. Manni finnst oft á tíðum að það sé fullkomlega óeðlilegt að það sé ekki bara eins og það var þar sem menn gátu fætt börn hvar sem var. Nú er í raun búið að setja upp plan þar sem menn segja: Við ætlum ekki að þola neina einustu áhættufæðingu þar sem við getum gert betur. Þess vegna hefur verið stefnt í þá átt sem við höfum horft upp á. Þegar lagt er til að setja upp skurðþjónustu í Vestmannaeyjum til þess að taka á mjög fáum tilvikum þegar um er að ræða áhættufæðingu (Forseti hringir.)sem þarf skyndilega að fara í keisara, þá er einfaldlega sagt (Forseti hringir.)að það verði ekki nægileg þjálfun á þessum stað. Þá verðum við pólitíkusarnir svolítið litlir (Forseti hringir.)þegar við ætlum að fara að taka ákvörðun sem okkur finnst rétt en fagfólkið segir að sé röng. (Forseti hringir.) Þess vegna er ekki í þessari byggðaáætlun lagt til að setja upp skurðstofu í Vestmannaeyjum svo dæmi sé tekið.