148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[20:07]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að þessi þingsályktunartillaga sé komin fram. Það gefur okkur tækifæri til að ræða þessi mikilvægu mál, byggðamál. Auðvitað má spyrja sig hvort slíkt sé ekki akkúrat verkefni stjórnvalda, að Alþingi og framkvæmdarvaldið séu til þess að framkvæma þessa hluti, hvort það þurfi að vera í sérstakri byggðaáætlun. En það að byggðaáætlun sé búin til gefur okkur tækifæri til að ræða þessi mál. Ég fagna því hvernig þessi byggðaáætlun hefur verið unnin, í hversu miklu samráði, og hve margir hafa komið að henni. Það samráð eitt gerir fleiri ábyrga fyrir því að framfylgja svona plaggi. Það fær líka fleiri til að hugsa um þessi mál og hafa þau bak við eyrun við sín störf.

Það hefur nefnilega alveg skort hingað til að samhæfing sé á milli ráðuneyta og þingnefnda. Það sem er ákveðið í lögum og í einu ráðuneyti færist niður til undirstofnana þess ráðuneytis og á milli málaflokka. Vil ég þar byrja á að nefna verkefnið Brothættar byggðir. Þar fór Byggðastofnun af stað með mjög flott verkefni, þótt kannski megi deila um nafnið, Brothættar byggðir, hvort það sé of neikvætt. Farið var af stað með það verkefni að greina hvaða svæði geti fallið undir brothættar byggðir. Sett var í gang áætlun og verkefnisstjóri þar inn. Svo komst verkefnisstjórinn og verkefnið sem slíkt að því hvað það var sem þessar brothættu byggðir vantaði til að geta glætt þær lífi, og þá könnuðust undirstofnanir eins og Rarik ekkert við þetta. Sögðu bara: Þið getið bara beðið fjöldamörg ár eftir að fá þrífösun rafmagns — sem er kannski grundvöllur þess að koma byggðum upp úr því ástandi að teljast brothættar. Ekki tókst að forgangsraða þessu þannig að þetta væru þær byggðir sem fengju fyrstar ljósleiðarann. Það er þessu sem þarf að ná alveg niður. Það þarf að fylgja þessu eftir.

Eins var það þegar við aðskildum sýslumenn og lögregluna og stækkuðum sýslumannsembættin og löggæsluembættin, sem heppnaðist að mörgu leyti frábærlega, styrkti lögregluna sérstaklega vel víða um land. Þá var það sett sérstaklega í lögin að sérnefnd undir forsæti forsætisráðuneytisins færi í að flytja verkefni til sýslumannanna, styrkja þau. Meginrökin fyrir því að þessi lög fóru í gegnum Alþingi Íslendinga voru þau að það ætti að fara að flytja aukin verkefni til sýslumanna. Innanríkisráðuneytið var eina ráðuneytið sem tók þátt í að flytja verkefni til sýslumanna og gerði þau ekki einu sinni jafn öflug og það ætlaði en gerði þó eitthvað. Hin ráðuneytin könnuðust ekkert við þetta.

Við verðum að tryggja að svona áætlanir vinni þvert á allt saman og að allt endi ekki í stofnunum í Reykjavík og sé stýrt af þeim hugsunarhætti sem þar ríkir. Af hverju segi ég þetta? Því að það virðist vera tilhneigingin að stofnanir í Reykjavík stækki en úti á landi minnki þær. Það er alltaf byrjað, þegar þarf að hagræða eða breyta, að skera niður það sem er lengst frá höfuðstöðvum viðkomandi stofnunar. Þetta hef ég fundið í störfum mínum hér á þinginu. Svo þegar kemur að mjög hagkvæmri og góðri sameiningu stofnana segja þingmenn bara sjálfkrafa nei. Það er sama hversu borðleggjandi það er að sameina viðkomandi stofnanir; betra fyrir verkefnið, betra fyrir landsbyggðina þess vegna að sameina þær og gera öflugri. Þingmenn segja bara nei. Þeir eru orðnir hræddir við þessa þróun, hvernig þetta fer allt í aðra áttina. Ýmsu er lofað við svona sameiningar, svo er ekkert staðið við það eins og ég rakti hér áðan með sýslumennina. Það er mjög mikilvægt að þetta haldi ekki áfram svona. Þetta er búið að skapa mjög mikla hræðslu. Það eru mýmörg dæmi um þetta.

Svo er annað sem við þurfum að hafa í huga þegar við vinnum svona þvert á málaflokka. Það er þegar við erum að ræða einstaka atvinnuvegi. Hvaða atvinnuvegir eru það sem halda byggðunum uppi? Það er jú landbúnaðurinn, sjávarútvegurinn, ferðaþjónustan og svo orkufrekur iðnaður. Þetta eru meginatvinnuvegirnir úti um land allt og tryggja að landið sé í byggð. Það er mjög mikilvægt að þessir atvinnuvegir séu öflugir til að halda landinu í byggð en líka til að halda uppi hagvexti í þessu þjóðfélagi. Þetta eru bara mikilvægustu efnahagslegu atvinnuvegirnir. Ég fullyrði að ef við hefðum ekki haft bændur úti um allt land, sem voru búnir að stofna ferðaþjónustu bænda, hefðum við ekkert getað tekið á móti ferðamönnunum þegar þeir komu. Við hefðum ekki getað tekið svona vel á móti þeim þannig að landið fengi svona góða landkynningu og ferðaþjónustan yxi svona hratt eins og hún gerði. Fyrir það gátum við þakkað íslenskum bændum, að hafa haft landið í byggð.

Þegar við ræðum sjávarútveginn, landbúnaðinn, sérstaklega þessar tvær atvinnugreinar, er alltaf talað eins og um sé að ræða afætur á íslensku þjóðfélagi, að þær eigi að borga miklu meira eða séu of dýrar. Með of miklum álögum á sjávarútveginn með því að sjá of mikið eftir peningum til bænda erum við að draga úr byggðauppbyggingu. Við erum að gera allt erfiðara uppdráttar. Þarna erum við að rífast um fjárhæðir sem eru lágt hlutfall af heildartekjum ríkissjóðs. Það er alveg ótrúlegt að hægt sé að eyða jafn miklum tíma í að þrátta um svona lágar fjárhæðir fyrir svona mikilvæga atvinnuvegi. Fyrir ríkiskassann eru þetta lágar fjárhæðir en fyrir þessa atvinnuvegi gríðarlega háar og skipta miklu við rekstur þeirra.

Það eru þessar tvær atvinnugreinar sem eru okkur hvað mikilvægastar í þeim verkefnum sem við stöndum frammi fyrir, sem eru umhverfismálin. Sjávarútvegurinn hefur nú þegar náð markmiðum Parísarsamkomulagsins í umhverfismálum og ætlar að halda enn betur áfram. Ég held að við ættum að fá íslenska bændur með okkur í að draga úr kolefnislosun og binda kolefni. Þá náum við mjög hröðum og góðum árangri og styrkjum aftur það sem við ræðum hér, byggðir landsins.

Ég held nefnilega að byggðir landsins geti líka verið sjálfbærar. Við þurfum ekkert endilega að ræða það að flytja stofnanir eða búa til störf ef við höfum bara innviðina hjá þeim í lagi, þessa grunninnviði. Ef við bara pössum okkur á því að vegirnir, hafnirnar, flugvellirnir og þessar samgöngur gangi eðlilega fyrir sig. Allir ljósleiðarar þurfa að vera tengdir, eins og er í byrjun markmiðanna; þrífösun rafmagns; við þurfum að hafa menntunina og það má alveg vera háskóli úti á landi. Það þarf ekki að sameina allt í Háskóla Íslands í Reykjavík. Það sýnir sig að þar sem nemendurnir læra fá þeir hugmyndirnar og þar munu þeir starfa í framtíðinni. Þess vegna er mjög mikilvægt fyrir okkur að hafa háskóla víða um land og annars konar menntunartækifæri. Heilbrigðisþjónustu þarf að vera hægt að veita í gegnum utanspítalaþjónustu. Utanspítalaþjónustan eða sjúkraflutningarnir, sjúkrabílar, flugvélar og þyrlur, eru eitt það mikilvægasta í þeirri þróun sem er í dag til að geta jafnað aðgengi landsmanna að bestu fáanlegu heilbrigðisþjónustu. Fjarlækningar og öflugar heilbrigðisstofnanir úti um landið eru gríðarlega mikilvægar, og löggæslan og sýslumennirnir sem ég kom inn á áðan. Lögreglan og sýslumennirnir eru einu talsmenn ríkisvaldsins úti um landið. Það er mikilvægt að þetta gangi upp.

Við verðum að sameinast um þessa innviði. Þá held ég að byggðir landsins spjari sig nokkuð vel sjálfar, búi til sín atvinnutækifæri og sinn uppgang í gegnum þetta.

Þarna kem ég enn og aftur að því sem ég er að tala um, stofnanir í Reykjavík, og hvernig hugsunin þarf að ná í gegnum allt saman. Það er rosalegt að þurfa að vera í baráttu við ráðuneytin til að byggja upp Fisktækniskólann í Grindavík sem er að kenna þennan grunnatvinnuveg úti um allt land, hjálpa framhaldsskólum að bjóða upp á fjölbreyttara nám fyrir fólkið í byggðunum til að starfa við það sem það er alið upp við. Þetta á ekki að þurfa. En ég vil hrósa hæstv. ráðherra, hvað hann tók vel í þá umleitan, með Fisktækniskólann, þegar hann var sjávarútvegsráðherra. Við erum búin að berjast fyrir að hafa Bifröst og landbúnaðarháskólann að störfum. Það er annað svona. Það er alveg ótrúlegt fræðslunetið víða um land; menntamálaráðuneytinu gengur ekkert að fjármagna það.

Ég vil segja hér í lokin: Það er hægt að tala um byggðamál svo lengi, maður kemur ekki öllu að. Allt kerfið verður að taka ábyrgð og hafa þetta alltaf í huga. Ég vona að þessi þingsályktunartillaga, hversu víðtækt samráð sem verður í henni, verði til þess að þessu verði fylgt eftir alla leið.