148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[20:21]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans svör. Ég vil minna hv. þingmann á það líka, gerði það kannski ekki nógu skýrt áðan, að hann situr ekki einungis á Alþingi heldur er aðili að ríkisstjórn sem hefur framkvæmdarvaldið með höndum. Framkvæmdarvaldið er stutt af stjórnarflokkunum. Hv. þingmaður var í stjórn á þessum tíma og er enn í stjórnarflokki. Þeir hafa með höndum framkvæmdarvaldið. Ef þetta er eitthvert vandamál eru líklega hæg heimatökin að ræða það í gegnum stjórnina.

Ef ekki er farið eftir lögum þarf að setja betri lög. Ef þau virka ekki og ekki er farið eftir þeim verður að setja skýrari lög og fylgja eftir stjórnarstefnunni sem birtist í lögum viðkomandi stjórnar.

Ég ætlaði að nota tíma minn til að spyrja að fleiru en þessu. Varðandi styrkingu sýslumannsembættanna, til dæmis. Hvað vill hv. þingmaður segja um hugmyndir um að flytja verkefni sem eru undir stofnunum eins og Samgöngustofu, Vinnueftirlitinu, Vinnumálastofnun, Fiskistofu o.s.frv., senda menn æ ofan í æ út á land með öllum tilheyrandi kostnaði? Er ekki þjóðráð að flytja eitthvað af þessu, sem passar kannski best, til sýslumannsembættanna? Einhver þessara verkefna, er það ekki tilvalið? Í stað þess að hafa menn á launum við það á ferðalögum um landið að sinna viðvikum hingað og þangað. Hver er skoðun hv. þingmanns á þessu?

Varðandi það að setja stefnu og fylgja henni ekki eftir vil ég spyrja hv. þingmann um náttúrustofurnar. Náttúrustofurnar í okkar kjördæmi, hv. þingmanns, eru sveltar. Þetta er eitt byggðamálið. Hverju vill hv. þingmaður svara um það að styðja og styrkja náttúrustofur?