148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[20:39]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst um flutning á einu og öðru út á landsbyggðina sem við getum kallað menningarviðburði eða annað slíkt. Það er auðvitað háð aðstæðum. Það er mjög erfitt fyrir stóra hljómsveit eða Þjóðleikhúsið eða Íslenska dansflokkinn eða hvaða stóra menningarhóp sem er að gera þetta, nema á sumum stöðum. Ég held að við séum nokkuð sammála um að þetta sé vissulega af hinu góða. Ég get nefnt t.d. að norska Þjóðleikhúsið hefur ákveðna áætlun á hverju ári um að sýna ákveðnar sýningar úti á landi. Það er auðvitað til fyrirmyndar. En eins og hv. þingmaður segir, þetta kostar peninga, þá þarf að gera ráð fyrir því.

Hvað flutning stofnana út á land snertir þá er ég ekkert andvígur því. Ég get ekki tekið afstöðu til þess hvort eigi að flytja auðlindaráðuneytið eða eitthvað annað út á land, vegna þess að ég get ekki ímyndað mér svarið nema ég geti komið að því í nokkru návígi, það er væntanlega mjög flókið mál. En almennt séð þá er ég alveg samþykkur því að það sé hægt að flytja stofnanir út á landi. Ég bendi á að fyrirhuguð þjóðgarðastofnun verður væntanlega ekki í Reykjavík, svo ég nefni eitt dæmi. En á móti kemur svo hitt að stofnanir í Reykjavík geta verið með verulega mikla vinnslu úti á landi. Það tengist auðvitað ljósleiðaravæðingu og öðru slíku, en það þarf ekki alltaf að flytja stofnanirnar, það er nóg að starfsfólk búi annars staðar. Það er ekki alveg svona einfalt eins og maður myndi kannski álíta í fyrsta kasti að lausnirnar séu fyrst og fremst fólgnar í að flytja stofnanirnar. Það er líka hægt að gera þetta á þennan máta sem ég er að lýsa.

Almennt séð getum við skoðað tilteknar stofnanir og fengið almennilega úttekt á því. Þá skal ég taka (Forseti hringir.) afstöðu með eða á móti, en svona get ég svarað þessu almennt.