148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands o.fl.

468. mál
[22:47]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa yfirferð. Ég er bara með stutta spurningu og viðurkenni að ég er ekki búin að rýna í frumvarpið. Ég er ekki búin að lesa það allt saman enda er það stórt og viðamikið. Við fengum það til velferðarnefndar á seinasta kjörtímabili og þá var einmitt ekki hægt að afgreiða það vegna þess hversu stórt og viðamikið það er og hversu lítinn tíma við fengum. Þetta kom til okkar korteri fyrir þinglok og svipað ferli virðist vera í gangi núna.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, út af því að mjög alvarlegar athugasemdir komu frá Persónuvernd við frumvarpið á síðasta kjörtímabili, hvernig brugðist var við þeim athugasemdum. Einnig tek ég eftir því að í samráðskaflanum er ekkert minnst á að haft hafi verið samráð við Persónuvernd. Ég spyr því af hverju það var ekki gert. Það væri gott að heyra svör við þessu, hvort það hafi verið og hvernig brugðist var við þeim athugasemdum og hvers vegna ekki var haft samráð við Persónuvernd.