148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands o.fl.

468. mál
[22:51]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég skil það. Ég tek undir það að það er alltaf heppilegt að málin komi eins snemma fram og mögulegt er. Ástæða þess að það dróst að koma fram með málið er meðal annars sú að þær breytingar sem gerðar voru á frumvarpinu á milli ára og ákveðin atriði sem voru í frumvarpinu á síðasta ári þörfnuðust meira samráðs á milli aðila vinnumarkaðarins, bæði Samtaka atvinnulífsins og stéttarfélaganna. Við töldum mikilvægt að frumvarpið væri þannig unnið að lögð væri talsvert meiri vinna í það þannig að báðir aðilar væru sáttir við málið þegar það kæmi fram; málið er það veigamikið og um að ræða það miklar breytingar á nokkrum lögum, þetta er bandormur. Um leið hefur það bitnað á tímanum, við komum þá ekki fram með það eins snemma og við hefðum getað. En þetta er alltaf línudans.

Ég bið formann nefndarinnar og nefndina að virða þau sjónarmið að hugsunin var sú að reyna að ná sem víðtækastri sátt við aðila vinnumarkaðarins áður en frumvarpið yrði lagt fram. Ég held að það hafi tekist. Það mun alla vega koma mér verulega á óvart ef það hefur ekki tekist vegna þess að talsverð áhersla var lögð á það. Ég óska nefndinni og formanni hennar góðs gengis við að vinna þetta mál; ég vonast til að hún geri það hratt og vel en þó án þess að það bitni á vandaðri lagasetningu.