148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

húsnæðismál.

469. mál
[22:53]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér, líkt og forseti kom inn á, fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um húsnæðismál nr. 44/1998 með síðari breytingum. Frumvarpið er framhald þeirra breytinga sem gerðar hafa verið undanfarin ár, m.a. með tilkomu nýrra laga um almennar íbúðir og laga um húsnæðisbætur. Þetta frumvarp var lagt fram á 145. löggjafarþingi en varð ekki útrætt og er nú lagt fram aftur með nokkrum breytingum.

Markmið frumvarpsins er að finna hlutverki stjórnvalda í þjónustu í almannaþágu á húsnæðismarkaði traustan farveg til framtíðar. Lagt er til að stjórnvöld setji fram og kynni heildstæða húsnæðisstefnu með aðkomu Alþingis og efli og skýri hlutverk sveitarfélaga við mótun húsnæðisstefnu. Einnig verði aðkoma hagsmunaaðila tryggð með tilkomu húsnæðisþings. Framkvæmd húsnæðisstefnu stjórnvalda er fundinn traustur farvegur með því að skerpa á því meginhlutverki Íbúðalánasjóðs að vinna að stefnumótun á sviði húsnæðismála og vera ráðherra til ráðgjafar við mótun húsnæðisstefnu, vinna að upplýsingaöflun um húsnæðismarkaðinn og styðja við sveitarfélög við gerð og framkvæmd húsnæðisáætlana þeirra. Eitt af meginhlutverkum sjóðsins verður að úthluta svokölluðum stofnframlögum, en þeim er ætlað að styðja við uppbyggingu leiguhúsnæðis fyrir einstaklinga sem eru undir tilteknum tekju- og eignamörkum, samanber lög um almennar íbúðir.

Helstu breytingarnar sem í frumvarpinu felast eru í fyrsta lagi að lagðar eru til breytingar á lögum í samræmi við lög um almennar íbúðir og breytt hlutverk Íbúðalánasjóðs, m.a. vegna þeirra verkefna sem honum eru falin við veitingu stofnframlaga á grundvelli þeirra laga.

Í öðru lagi er skerpt á hlutverki Íbúðalánasjóðs, sveitarfélaga og Alþingis í stefnumótun og áætlanagerð í húsnæðismálum. Ákvæðum um hlutverk sjóðsins er breytt þannig að stefnumótun, rannsóknum, greiningum og áætlanagerð er gert hærra undir höfði og ákvæði um húsnæðisáætlanir sveitarfélaga og skyldu þeirra til að aðstoða þá sem eiga erfitt með að afla sér húsnæðis eru skýrð. Lagt er til að ákvæði um húsnæðisnefndir sveitarfélaga falli brott en verkefni sveitarfélaga verði fengin sveitarstjórn sem geti svo í samþykktum sínum ákveðið að fela öðrum innan sveitarfélagsins þau. Þá er lagt til að við lögin bætist nýr kafli sem fjalli sérstaklega um stefnumótun á sviði húsnæðismála og húsnæðisáætlanir. Þar er meðal annars að finna nýtt ákvæði um húsnæðisþing sem halda skal á tveggja ára fresti og skyldu ráðherra til að leggja fram þingsályktunartillögu um stefnumótun á sviði húsnæðismála til að tryggja aðkomu Alþingis. Að lokum eru lagðar til breytingar á ákvæðum um úrræði vegna greiðsluvanda lánþega og afskriftir.

Virðulegur forseti. Ég hef gert grein fyrir meginatriðum þessa frumvarps en í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er á húsnæðismarkaði er enn mikilvægara en áður að tryggja greiningar og áætlanagerð í húsnæðismálum til að tryggja þann grundvöll undir alla velferð í landinu sem húsnæðisöryggi einstaklinga og fjölskyldna er.

Um leið og ég legg til að frumvarpinu verði vísað til velferðarnefndar að lokinni þessari umræðu vil ég bæta því við að það frumvarp sem hér er fram komið felur ekki í sér stórar efnislegar kerfisbreytingar þegar kemur að húsnæðismarkaði. Hins vegar eru í vinnslu, í samstarfi milli ráðuneytisins og Íbúðalánasjóðs, tvö meginmál sem snúa að húsnæðismálum. Annað lýtur að fyrstu kaupum og hvernig hægt er að styrkja stöðu þeirra sem eru að koma inn á húsnæðismarkaðinn; hafa verið kallaðir fyrstu kaupendur sem talsvert var rætt um í síðustu kosningum. Einnig er í vinnslu mál sem unnið er í samstarfi milli Íbúðalánasjóðs og ráðuneytisins og lýtur að því að styrkja stöðu húsnæðismarkaðar á landsbyggðinni og hvernig hægt sé að örva byggingariðnaðinn á þeim svæðum þar sem verulegur markaðsbrestur hefur ríkt.

Eins og gefur að skilja verða mál eins og þessi ekki kláruð á nokkrum mánuðum en þessi mál eru í vinnslu. Það frumvarp sem hér er er meira til að sníða af ýmsa agnúa og skerpa á hlutum sem snúa að húsnæðismálunum. Stærri mál eru síðan vonandi væntanleg innan tíðar. Vonandi verður hægt að leggja þau fram á næsta löggjafarþingi.