148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

húsnæðismál.

469. mál
[23:42]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað kórrétt hjá hv. þm. Bergþóri Ólasyni, þetta er eitt af stóru vandamálunum sem Íbúðalánasjóður hefur þurft að glíma við. Að vísu er verið að reyna að greiða úr því með 18. gr. þessa frumvarps eða bráðabirgðaákvæði þannig að sjóðurinn fái heimild til að endurfjármagna lán lögaðila sem hann hefur þegar veitt með nýju láni o.s.frv. (Gripið fram í.) Ég geri mér grein fyrir því, en ég sé ekki hvernig menn geta leyst vandann með einhverju fifferíi. Vandinn er orðinn til og hann er þarna. Sjóðurinn verður að bera hann. Það er eitt af því sem við þurfum að horfast í augu við þó að rekstur sjóðsins sjálfs hafi náð jafnvægi — og það er gleðilegt, við skulum halda því til haga sem vel hefur verið gert. Ég held nefnilega að ágætlega hafi tekist að ná utan um rekstur sjóðsins. Forstjóri og starfsmenn sjóðsins eiga að fá hrós fyrir það. En ég sé ekki hvernig við leysum uppgreiðsluvandann með öðrum hætti en að mismunurinn falli á sjóðinn, hann hlýtur alltaf að gera það. Ég sé ekki hvernig annað er hægt. Það eru þá aðrir og merkari menn en ég sem geta fundið það út. Þetta er vandamál sem við horfum bara á og við þurfum að óbreyttu vaxtaumhverfi því miður að sætta okkur við.