148. löggjafarþing — 53. fundur,  23. apr. 2018.

hlutabréfaeign LSR í fyrirtækjum á markaði.

528. mál
[16:02]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorsteinn Sæmundsson) (M):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst og fremst þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að vera til svara við þessari fyrirspurn minni. Eins og allir vita eru um 38% allra hlutafélaga, þ.e. skráðra félaga, í eigu lífeyrissjóðanna á Íslandi og bent hefur verið á það af fagmönnum að óæskilegt sé að eignarhald sé í höndum aðila sem eru svo langt frá eign sinni eins og lífeyrissjóðirnir eru, þ.e. að þeir hafi ekki beina stjórnaraðild í mörgum tilfellum og þeir séu svona einskonar sofandi hluthafar, ef við getum orðað það þannig.

Því legg ég fram þessa fyrirspurn sem er í fjórum liðum og vonast eftir því að ráðherra gefi greið svör. Segja má að algengur hluti, t.d. Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, þá er ég að tala bæði um A og B hlutann, sé kannski 10–14% í mjög stórum fyrirtækjum, HB Granda, Högum og fleiri. Í fjölmörgum af þeim stóru fyrirtækjum eru lífeyrissjóðirnir til samans með ráðandi hlut og því er það ekki að engu að maður spyr um það hvort Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hafi gert sér eigendastefnu, hvort hún hafi verið birt og hvort Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hafi krafist stjórnarsetu eða gert félag við aðra lífeyrissjóði um að leita eftir stjórnarsetu. Einnig má benda á að stórir aðilar á markaði, eins og t.d. olíusjóður Norðmanna, gera mjög ríkar kröfur til þeirra fyrirtækja sem þeir fjárfesta í. Það má segja að sá sjóður hafi með sér nokkurs konar siðareglur sem varða m.a. starf þeirra fyrirtækja sem fjárfest er í, kjör stjórnenda þeirra o.s.frv.

Nú er það svo þó að ég sé ekki stuðningsmaður öfundar eða einhverra slíkra kennda, er ég samt hugsi yfir því að t.d. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins eigi stóran hlut í fyrirtækjum þar sem laun æðstu stjórnenda nema allt að 100 milljónum kr. á ári, sem eru u.þ.b. tuttuguföld laun þeirra sem lægst hafa kjör í viðkomandi fyrirtækjum. Maður verður var við það í þeim kjaraviðræðum sem fara í hönd í haust þegar maður heyrir tóninn í verkalýðsforingjum sem finnst þetta algjör ósvinna. Ég er alveg sannfærður um og vil fá staðfestingu hjá ráðherra eða álit hans á því að þetta mun verða til trafala í kjarasamningum í haust. Þessi ofurlaun einstakra starfsmanna stórra fyrirtækja sem lífeyrissjóðirnir eiga í munu verða til trafala.

Mig langar til að biðja hæstv. ráðherra að svara mér mjög skýrt þessum fjórum spurningum sem til hans er beint í þessari fyrirspurn.