148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[14:40]
Horfa

Frsm. velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Frú forseti. Ég tek upp þráðinn þar sem frá var horfið og ætla að ræða stuttlega, ég ekki að þreyta hv. þingmenn neitt rosalega lengi, þau atriði sem snúa sérstaklega að félagsþjónustu sveitarfélaga og þeim breytingum sem við erum að gera þar.

Það sem snýr að lagabreytingunum þar er í rauninni að við erum að færa lögin til samræmis við alþjóðlegar skuldbindingar okkar til að stjórnsýslan samræmist þeim skuldbindingum sem við höfum undirgengist og þannig að þau passi, skulum við segja, við lögin um stuðning, þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Eins og ég nefndi í ræðu minni áðan um hitt frumvarpið þá taldi nefndin að gera þyrfti að breytingar á kaflanum um stjórnskipulag. Hann er í rauninni færður til samræmis við kaflann sem er í frumvarpinu um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þar er ákveðin harmónía á milli.

Hvað varðar skyldur sveitarfélaga er rakið í kaflanum um þjónustuþörf að nokkur umræða skapaðist í nefndinni um að takmarka réttinn til NPA-þjónustu við einhvers konar lágmarksþörf. Það var mikið rætt, eins og ég kom aðeins inn á áðan. Til að samræmi sé á milli laganna leggur nefndin til að almenna þjónustan, þ.e. sú þjónusta sem sveitarfélögin veita undir almenna fyrirkomulaginu, verði allt að 15 klukkustundir á viku en að NPA-samningar muni þá ekki koma til álita að jafnaði fyrr en eftir að þjónustan er komin yfir það mark.

Það kemur m.a. til af því að við minni þjónustuþörf en 10–15 tíma má segja að það sé svolítið mikið í lagt að setja af stað umsýsluferli og allt sem því fylgir, taka að sér vinnuveitendahlutverk út á starfshlutfall sem væri einhvers staðar á bilinu 20–25%. Þess vegna eru þessi mörk sett. Það setur vissulega þær kvaðir á sveitarfélögin að þau standi sig í því að veita þjónustu upp að 15 klukkustundum að jafnaði. Við trúum því og treystum að sveitarfélögin hafi til þess metnað og muni gera vel í því.

Varðandi ákvæði um akstursþjónustu komu einnig fram alls konar vangaveltur og umræður um það mál. En í e-lið 5. gr. frumvarpsins er lagt til nýtt ákvæði um akstursþjónustu sem er að stofni til sama efni og ákvæði og hefur verið í 35. gr. laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992. Við endurskoðun laganna þótti fara betur á því að ákvæði um akstursþjónustu, sem er almenn þjónusta, væri í lögum um félagsþjónustuna. Þetta er ekki þjónusta sem á eingöngu við um einhvern tiltekinn hóp, hún getur átt við um fatlaða einstaklinga, aldraða, þ.e. þá sem hafa þessa tilteknu þjónustuþörf. Það þótti því fara betur á því að flytja hana þangað.

Sveitarfélögin hafa eðli málsins samkvæmt lýst því að þau hafi af því nokkrar áhyggjur að þetta geti valdið þeim kostnaðarauka og vilja þess vegna vera viss um að þau hafi forræði á skipulagi akstursþjónustunnar og mikið um það að segja með hvaða hætti reglur séu settar og hvernig allt þetta snúi að þeim. Nefndin gerir þess vegna tillögu um breytingu á þessum liðum í frumvarpinu. Það er breytingartillaga 3, b-liður. Nú erum við að tala um breytingarskjalið í félagsþjónustufrumvarpinu, hv. þingmenn. Tillagan hljóðar svo:

„Ráðherra setur nánari leiðbeiningar um akstursþjónustu í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtök fatlaðs fólks þar sem m.a. skal kveðið á um tilhögun á akstri utan sveitarfélags og kostnaðarskiptingu vegna akstursþjónustu í dreifbýli.“

Það er mjög mikilvægt annars vegar að þetta samráð fari fram og hins vegar að það sé á hreinu að það er hlutverk ráðuneytisins að ganga eftir því að þetta verði gert. Það hvílir ákveðin ábyrgð á ráðuneytinu að gangast í það mál.

Síðan er það náttúrlega þannig, eins og við rekstur almenningsvagna eða almenningssamgangna eða eitthvað þess háttar, að þegar við erum búin að skilgreina akstursþjónustuna með þessum hætti sem almenna þjónustu leiðir af sjálfu að kostnaði eða gjaldtöku sem kynni að vera, verður stillt í hóf. Að öðru jöfnu verður gjaldtaka á pari við aðrar almenningssamgöngur sem eru þá í viðkomandi sveitarfélagi. En auðvitað munu sveitarfélögin setja sér gjaldskrá um það eðli máls samkvæmt.

Frú forseti. Ég vil í lok ræðu minnar þakka hv. velferðarnefnd kærlega fyrir samstarfið í þessu máli. Ég held að sé óhætt að segja að svona stórt og flókið mál krefst mikillar yfirlegu af hálfu nefndarmanna. Það krefst þess af nefndarmönnum að þeir setji sig inn í sum flókin mál sem þeir hefðu ekki undir öðrum kringumstæðum endilega kafað svona djúpt ofan í. Ég held að mér sé óhætt að segja að allir hafi nefndarmenn sýnt þessu máli mikinn áhuga, að hafi allir tekið virkan þátt í umræðum um málið innan nefndarinnar og er það vel.

Undir álitið fyrir bæði frumvörpin rita allir nefndarmenn hv. velferðarnefndar: Halldóra Mogensen formaður, Ólafur Þór Gunnarsson framsögumaður, Andrés Ingi Jónsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Ásmundur Friðriksson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halla Signý Kristjánsdóttir og Vilhjálmur Árnason. Auk þess er Hanna Katrín Friðriksson áheyrnarfulltrúi samþykk álitinu.