148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[15:20]
Horfa

Frsm. velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir ræðuna. Ástæða þess að ég kem í andsvar er að þingmaðurinn gaf mér ástæðu til þess að reifa aðeins betur þau atriði sem hann fór yfir í ræðu sinni, sérstaklega varðandi vinnuverndina, og réttindi og skyldur starfsmanna og notenda.

Við reifum þetta vissulega í nefndarálitinu en bara svo það sé sagt einu sinni enn er það algjörlega ljóst af hálfu nefndarinnar, og nefndin er algjörlega einhuga í því, að ekki á að gefa neinn afslátt af þessum þáttum. Réttindi starfsmanna, kjarasamningar og öll þessi atriði verða náttúrlega að vera til grundvallar, það á allt að virða. Við ræddum líka hin siðferðilegu álitaefni; hvernig verður t.d. ráðningarsamband milli mjög tengdra aðila? Er jafnvel flötur á því að hafa takmarkanir á því? Nefndin valdi að fara ekki beint þá leið en beina því þá frekar til sveitarfélaganna að þau geti sett um það skýrari ákvæði í reglum sínum. Í þeim reglum sem sveitarfélög hafa þegar sett eru sums staðar vissar takmarkanir á hversu náið ráðningarsamband geti verið á milli mjög skyldra aðila. Það er hárrétt sem fram kemur hjá þingmanninum, þetta geta stundum verið erfið mál.

Varðandi það hvort peningarnir dugi er það eitt af því sem er endalaust áhyggjuefni og ASÍ kom inn á það í umsögn sinni og máli sínu fyrir nefndinni inn á að það væri viss freistnivandi hjá notendum að sjá um samningana sjálfir til að geta sparað sér umsýslukostnað, eins og kemur raunar fram í nefndarálitinu. En fram hjá því verður hins vegar ekki horft að það eru líka viss réttindi í því að heimila notendum að vera sjálfir umsýsluaðilar.