148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[15:24]
Horfa

Frsm. velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil hnykkja aðeins á tveimur atriðum úr ræðu hv. þingmanns sem ég gleymdi að nefna, annars vegar um reynslu annarra Norðurlanda og hins vegar um fræðslumálin.

Varðandi reynslu annarra Norðurlanda fór nefndin kannski ekki mjög ítarlega yfir hana þó svo að hún hafi verið nokkur, en það var svo sannarlega gert í þeim undirbúningsnefndum og starfshópum sem unnu þá vinnu sem lögð var til grundvallar í framlögðu frumvarpi. Þar var þetta mikið skoðað. Nefndin fékk gögn um hvernig hin Norðurlöndin standa nákvæmlega að þessum málum. Þar kom m.a. fram, eins og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður sé að vísa í, að alla vega á sumum Norðurlöndunum eru settar ákveðnar skorður, og jafnvel hömlur, við ráðningarsambandi milli náinna ættingja. En eins og ég sagði áðan ákváðum við að fara ekki þá leið.

Varðandi fræðslumálin er svo sannarlega mikilvægt að tryggja að þeir sem starfa við þessa þjónustu hafi sömu möguleika á fræðslu og framgangi í starfi og að afla sér aukinna réttinda meðan þeir sinna þessu starfi eins og annað starfsfólk á vinnumarkaði. Ég vil þakka hv. þingmanni að benda á það því að það er svo sannarlega mikilvægt.