148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[15:27]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við séum að ræða þessi tvö mál eftir að hafa leitt þau til lykta í þokkalegri sátt eftir mikla og góða samvinnu, sem er til fyrirmyndar. Ég ætla ekki að fara ítarlega yfir frumvörpin í ræðu minni. Hv. framsögumaður Ólafur Þór Gunnarsson er búinn að fara vel yfir þau hér. Ég hugsa að ég láti það duga sem ítarefni. Annars ætla ég að fara yfir nokkuð sem mér finnst skipta miklu máli í þeim áfanga sem við erum að ná hér, klárist málið, sem hv. velferðarnefnd mælist til, þ.e. að verið er að auka valfrelsi í því hvernig þjónustu og aðstoð þeir sem á þurfa að halda geta sótt sér, sem skiptir gríðarmiklu máli. Þetta snýst um valfrelsi. Við komum ekki með endanlega lausn á vandamálum þeirra, eins og oft hefur verið talað um varðandi notendastýrða persónulega aðstoð, eins og hér sé komin lausnin sem leysi öll þau vandamál. Það er langt í frá. Þetta er bara ein viðbót við þau úrræði sem fyrir eru. Það versta sem við lendum í, í hvaða kerfum sem er, hvort sem er varðandi aðstoð við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir eða í barnaverndarmálum, er úrræðaleysi. Það er mjög slæmt.

Við höfum fundið það mjög vel í vinnu við þetta mál í nefndinni að sveitarfélögin, sem eru í tengslum við fólkið og sjá um þennan málaflokk, kalla eftir þessu úrræði. Það er gott. Þá skiptir miklu máli að það sé meira úrval og kerfin tali meira saman, sem við erum að reyna að láta þau gera með því að halda enn í heimildina til að gera notendasamningana. Að það sé þá í boði sem hentar hverjum og einum. Þá má líka benda á mál sem tengist þessu og liggur nú fyrir nefndinni. Það á að rýmka reglur um hverjir geti farið inn á hjúkrunarheimili, þ.e. að yngra fólk geti mögulega farið inn á hjúkrunarheimili ef það hentar því, þannig að kerfið sé svolítið heildstætt, að það séu ekki einhverjar reglur sem hindri mann ef þetta hentar manni betur. Ég held að það gagnist öllum, geti liðkað fyrir úrlausn margra mála fyrir marga og fjölgi úrræðunum gríðarlega að hafa svolítið opið á milli kerfanna og tryggja samspil þeirra. Ég held að við séum að feta þá leið í þessu máli.

Vissulega eru ekki öll vafa- og úrlausnarefni leyst í lagafrumvörpunum. Alls ekki. Þess vegna er mikilvæg reglugerðar- og regluvinnan á vegum sveitarfélaganna og velferðarráðherra. Þar mun þetta verða leyst að mörgu leyti. Við höfum nokkuð góða reynslu af því að hafa notendastýrða persónulega aðstoð í tilraunaverkefni sem staðið hefur yfir í nokkur ár. Það virðast ekki vera nein risavandamál þar. Margt sem við höfum áhyggjur af núna hefur ekki verið vandamál. Vissulega hafa komið upp agnúar en ekki nein risastór vandamál sem hafa gefið okkur tilefni til að hafa miklar áhyggjur af þessu. Eina vandamálið virðist vera fjöldi samninganna. Við fundum það eftir að samningunum var fjölgað um áramót að það létti svolítið pressunni á málinu og breytti því. Við þurfum að hafa vakandi auga með fjölda samninganna, og með væntingunum, hvernig þær eru uppfylltar. Hitt virðist hafa fundið sér góðan farveg og þarf að leysa þannig áfram. Það eru allir viljugir til að láta þetta ganga upp.

Það róar mann svolítið í þessu hversu fá stór áhyggjuefni hafa verið af þessum málum sem vissulega hefðu getað verið mun stærri.

Það var það helsta sem ég vildi koma að hér. Þetta er ekki eina úrræðið heldur er hér eitt nýtt úrræði sem mun leysa vanda margra en ekki allra. Það er enn þá áfram verkefni að skoða hvernig við þjónustum þennan hóp sem best og skilvirkast. Það skiptir mestu máli að tryggja valfrelsi allra. Við þurfum að fylgjast með hvort fjöldi samninga sé nægur, það virðist vera það sem er mesta hættan í þessu, og að flæðið á milli allra kerfa sé óhindrað og að ekki sé skipt upp í úrræði fyrir aldraða, unga, gamla, þetta sé fyrir fatlaða en hitt fyrir annað. Það þarf að opna það svolítið. Þannig held ég að við leysum úr vanda margra.

Að öðru leyti þakka ég fyrir góða samvinnu í nefndinni og við hagsmunaaðila í þessu efni. Vissulega fengu ekki allir nákvæmlega það sem þeir vildu, en ég held að við höfum náð ansi langt með góðri þverpólitískri sátt, þverfaglegri sátt, á milli aðila, þeirri sátt sem hægt er að ná. Þess vegna er þetta gleðilegt fyrir okkur að við skulum vera að ræða þetta í dag.