148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[15:37]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Í dag er ástæða til að gleðjast og það er ástæða til að fagna. Margir hafa haft langlundargeð og beðið, en nú styttist biðin hjá mörgum. Til 2. umr. er nú brýnt og langþráð frumvarp, raunar tvö, og nefndarálit. Það er mannréttindamál sem stuðla mun að miklum breytingum á daglegu lífi þjónustuþega, gera mörgum kleift að hefja nýtt líf, öðlast frelsi og sjálfstæði. Það á við um þá sem verða svo lánsamir að fá samning um notendastýrða persónulega aðstoð, NPA, við gildistöku þessara laga. Það verða ekki allir fyrsta kastið, því miður, en mikill vilji hefur komið fram í velferðarnefnd um að fjárlaganefnd, félagsmálaráðherra og ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að samningum fjölgi hratt þannig að jafnræðis verði gætt meðal þjónustuþeganna. Það var eitt af þeim atriðum sem fram komu í margvíslegum samtölum við hagsmunaaðila, að hugsanlega sætu ekki allir við sama borð; einn fengi samning um NPA en annar ekki. En við sem stóðum að þessari frumvarpsgerð og reglugerðarsmíðum vonumst til að girt hafi verið fyrir það og tryggt verði að jafnræðis verði gætt eins og kostur er.

Mikil sátt er um að fella í skorður þjónustu við einstaklinga samkvæmt þessu frumvarpi sem þurfa sólarhringsmeðferð í öndunarvél og að eyrnamerktir séu sérstaklega peningar í þann þátt. Hér er fyrst og fremst um að ræða sérhæfða umönnun og hjúkrun og er fjárhagslegur þungi talsverður á herðum sveitarfélaga.

Ég hvet og brýni stjórnvöld til að fallast á þá sýn og þær áherslur sem fram koma í nefndaráliti velferðarnefndar. Að horft verði til framtíðar með það fyrir augum að notendastýrð persónuleg aðstoð verði meginform þjónustunnar við fatlað fólk, hvort sem um er að ræða börn, fulltíða einstaklinga eða eldra fólk. Væntingarnar eru þær að svo verði sem fyrst og enn er áréttað að innleiðingu NPA verði flýtt með kröftugum hætti. Veigamikill hluti í innleiðingu og framkvæmd laganna eru reglugerðir um einstaka þætti þessa samsetta og viðkvæma viðfangs. Þeirri vinnu er nú lokið af hálfu ráðuneytis eða er a.m.k. á lokastigi. Það er mjög mikilvægt.

Velferðarnefnd lagði talsverða áherslu á það að fylgja eftir þeirri vinnu, skoða á öllum stigum innihald og efnistök reglugerðanna og eiga samráð við fulltrúa notenda. Það tókst með ágætum að mínu áliti. Þetta er viðamikil þjónusta og hluti hennar er kostnaðarumfang. Það er eðlilegt og hluti samfélagslegrar þjónustu sem almenn sátt er um.

Þetta er samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga og því reynir mikið á bæði þessi stjórnsýslustig, að þau standi sig í stykkinu. Eitt af því er kostnaðarskipting og við treystum því að fullkomin sátt verði um það og tefji ekki framþróun á þessu mikilvæga sviði.

Frú forseti. Ég ætla ekki að verða langorður, ég vil bara að lokum þakka samnefndarmönnum fyrir hið góða samstarf við undirbúning beggja þessara frumvarpa og þeim fjölda embættismanna og hagsmunaaðila sem nefndin hefur átt samstarf við. Þetta hefur verið lærdómsríkt og þroskandi ferli og eindrægni mikil.

Sömuleiðis vil ég við þetta tækifæri færa þakkir þeim nefndarmönnum, alþingismönnum sem nú sitja á þingi og þeim hinum fyrri sem horfnir eru á braut, sem áður hafa komið að málinu, undirbúið það á fyrri stigum, þokað því áfram og gert það mögulegt að við stöndum hér í dag með fullbúið frumvarp, að því er við trúum, sem við vonumst til að geti orðið að lögum 1. október nk. og komi til framkvæmda í þágu fjölda samborgara okkar um allt land á hausti komanda.