148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

trygging gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga.

14. mál
[19:36]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Því er til að svara að hér erum við auðvitað að fjalla um þingsályktunartillögu er lýtur að opinberum fjárfestingum en ekki opinberum rekstri eins og hv. þingmaður kom inn á. Það er rétt og ég fagna því líka að það er mikill einhugur í nefndinni um að samþykkja þessa þingsályktunartillögu og breið pólitísk samstaða um hana, enda komum við flutningsmenn að þessari tillögu úr mörgum flokkum.

Það er líka ástæða til að geta þess að við ræddum það í nefndinni þegar við fengum okkar ágætu gesti og veltum því upp hvort það kynni að vera mýta að opinberar fjárfestingar fari fram úr áætluðum kostnaði og þá með tilliti til þess hvort það sé frekar í opinberum fjárfestingum en í fjárfestingum hjá einkageiranum. Ein af ástæðunum kann að liggja í því að kostnaðaráætlanir við einkafjárfestingar eru ekki birtar. Okkur er kannski ekki alveg ljóst hvort slíkar fjárfestingar fari fram úr áætlunum eins og á við um opinbera geirann. En ég tek undir að það er full ástæða til að skoða þetta frekar. Það hafa margir aðilar í fræðasamfélaginu skoðað þetta og tekið viðmið erlendis frá. Ég held að við getum örugglega lært eitthvað af því.

Þegar kemur aftur á móti að rekstrarþættinum er það svo að það er alla vega mín skoðun að við eigum alltaf að tryggja hagkvæmni í opinberum rekstri. Ég held reyndar að við höfum náð töluverðum árangri í því. Ég held að lög um opinber fjármál hjálpi okkur við það. Ég held að það auki eftirlit þingsins, til að mynda með þeim verkefnum sem tilgreind eru í fjármálaáætluninni, þeim mælikvörðum sem hafa verið settir upp. Nú er ég ekki að segja að það verklag sé algerlega fullkomið en ég held að það sé (Forseti hringir.) í áttina. Ég fæ þá kannski að koma frekar að þessu í síðara andsvari.