148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

trygging gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga.

14. mál
[19:40]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aftur þakka ég hv. þingmanni andsvarið. Ég hygg að ég og hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson deilum þeirri skoðun að einkarekstur kunni að fara vel á mörgum sviðum. En ég er henni fyllilega sammála hvað það varðar að það að útvista verkefnum er ekkert töfraorð. Það þarf að huga sérstaklega að því. Það þurfa að vera mjög skýrir mælikvarðar hvað það varðar og skýrt eftirlit með því alveg eins og er þegar um opinbera aðila er að ræða. Það held ég að sé bara hugmyndafræðin á bak við það: Þegar við erum með opinbert fé þurfum við alltaf að horfa vel á það. Í mínum huga, ef ég hef skilið spurninguna rétt, er jafn mikilvægt að hafa skýra mælikvarða til opinberra stofnana og þeirra verkefna sem þær sinna, hvort þær skili af sér því sem ætlast er til fyrir það fjármagn sem þær fá, og ef um er að ræða einkaaðila, sjálfseignarstofnanir eða aðra aðila sem koma að opinberri þjónustu með einhverjum hætti. Ef ég hef skilið hv. þingmann rétt var hún að fiska eftir afstöðu minni til þess að við færum sömu leið við að tryggja gæði, hagkvæmni og skilvirkni í opinberum rekstri og í rekstri sem aðrir aðilar koma að. Ég tek heils hugar undir það, það er eitthvað sem við eigum alltaf að stefna að.