148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

vestnorrænt samstarf um menntun í sjávarútvegsfræðum.

117. mál
[20:01]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari góðu og mikilvægu þingsályktunartillögu og þakka Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins kærlega fyrir að setja þetta mál á oddinn. Ég tel að hér sé gríðarlega mikilvægt mál á ferðinni. Þó að þetta sé ekki löng þingsályktunartillaga er hún miklu stærri en hún lítur út fyrir að vera. Ég vil líka nefna að það er kannski ótrúlegt hvað við erum komin stutt á veg í þessum málum hér á landi miðað við þá þekkingu og reynslu sem við höfum og miðað við það hversu stór atvinnuvegur sjávarútvegurinn hefur verið og mikilvægur fyrir okkur hér á landi. Ef rétt er á málum haldið með þessa þingsályktunartillögu held ég að þetta samstarf fái að þróast, stækka og aukast. Þessir skólar tala mikið saman í dag. Ef það er sett á svolítið formlegri ríkisstjórnastall held ég að það muni lyfta málinu upp á næsta plan og auka veg allra þessara skóla í vinalöndunum þremur.

Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að koma að málum og taka þátt í að byggja upp Fisktækniskólann í Grindavík. Þar er búið að vinna gríðarlega mikið frumkvöðlastarf við að koma þeim skóla á. Það verður að segjast eins og er að það er búin að vera ótrúlega erfið þrautaganga að fá viðurkennt að hér þurfi að vera sérstakur sjávarútvegsskóli, Fisktækniskóli Íslands, sem vinnur þverfaglega með öllum þeim framhaldsskólum sem vilja á Íslandi og eru með stuðning þar. Það er algjörlega til fyrirmyndar hvernig þessi skóli hefur verið byggður upp þannig að hann þurfi ekki að kosta mjög dýra iðnnámsaðstöðu á hverjum stað fyrir sig, heldur hefur verið gott samstarf við greinina. Greinin á mikið hrós skilið fyrir að taka þátt í þessari uppbyggingu, hvernig hægt er að sinna þessu mikilvæga starfsnámi hér á landi á mjög hagkvæman og skilvirkan hátt og miðað við það er þetta búin að vera ótrúlega mikil þrautaganga.

Ef svona tillaga nær fram að ganga held ég að hún muni lyfta náminu upp þannig að það verði auðveldara að byggja það upp. Miðað við þá miklu reynslu og þekkingu sem þessi lönd hafa í nýtingu á sjávarauðlindinni munum við með góðu námi sem fær að vaxa og dafna geta nýtt þessa reynslu og þekkingu til mikilla framfara, nýsköpunar og verðmætasköpunar. Það er búið að sýna sig í sjávarútveginum hvað við erum nú þegar farin að nýta þessa þekkingu mikið í tækniiðnaðinum sem vex hér.

Ég held að nýsköpun á Íslandi sé hvað mest í sjávarútvegi. Ég held að fáar atvinnugreinar séu með jafn mikla nýsköpun og er í sjávarútvegi. Þetta eykur heldur betur á það. Það er mikilvægt að við sameinumst um að nýta þekkingu, reynslu og krafta sem þessar þjóðir hafa saman. Ég hef hug á að skoða hvort við getum meira að segja tekið samstarfið enn lengra á vettvangi Norðurlandaráðs. Þessar þjóðir á Norðurlöndum hafa mikið fram að færa víðar, út fyrir Norðurlönd, hafa mikla þekkingu og reynslu sem við getum flutt út og líka kennt öðrum þjóðum hvernig þær geta nýtt auðlindir sínar betur. Þess vegna fagna ég tillögunni og heiti mínum fulla stuðningi við málið.