148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

vestnorrænt samstarf um menntun í sjávarútvegsfræðum.

117. mál
[20:11]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka þeim hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni um þessa þingsályktunartillögu. Það er gaman að heyra svo mikinn stuðning við hana og áhuga hjá hv. þingmönnum. Mig langar að þakka hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir innlegg hennar og að sjálfsögðu verður einnig horft til þess náms sem boðið er upp á á Vestfjörðum.

Mig langar líka að geta þess að í dag eru kosningar í Grænlandi. Eitt af stóru málunum í kosningabaráttunni þar er einmitt menntun. Eins og við vitum búa Grænlendingar við mjög sérstakar aðstæður. Þetta er stórt og mikið land og erfitt yfirferðar. Þegar við kvörtum yfir því hér að erfitt sé að halda úti góðri þjónustu og góðu námi víðs vegar um landið getum við ímyndað okkur hvernig það er í Grænlandi. Þau hafa glímt við erfiðleika hvað það varðar.

Þess vegna tel ég að þessi þingsályktunartillaga og aukið samstarf á þessum vettvangi sé tækifæri fyrir þjóðirnar allar. Við höfum að sjálfsögðu fulla ástæðu til að vera mjög stolt af okkar sjávarútvegi og þeirri þekkingu sem býr í byggðum landsins, ekki síst hjá menntastofnunum sem hafa verið að sérhæfa sig á þessu sviði. Ég efast ekki um að við höfum töluvert fram að færa.

Ég held líka að við getum lært af hinum þjóðunum. Mig langar til að mynda að nefna það að Færeyingar eru mjög framarlega í fiskeldi. Við sem fórum á vegum Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins til Færeyja á síðasta ári fengum að skoða þar nýstárlega verksmiðju, mjög stóra og viðamikla verksmiðju á sviði fiskeldis. Það var líka áhugavert að sjá hversu mörg tæki voru þar frá íslenskum framleiðsluaðilum. Eins og hv. þm. Vilhjálmur Árnason kom inn á er nýsköpun í sjávarútvegi væntanlega okkar stærsta svið. Sjávarútvegur er einn af grunnatvinnuvegum þjóðarinnar og þar eigum við mjög mörg flott fyrirtæki víða um land sem hafa sinnt nýsköpun á þessum vettvangi. Ég efast ekki um að við höfum töluvert fram að færa í þeim efnum.

Ég fékk tækifæri til að fara til Sisimiut á sínum tíma og heimsækja þar ARTEK, sem við nefnum hér, sem er þar einhvers konar háskólabrú. Þar er fisktæknimiðstöð og þar er t.d. samstarf við danska háskóla. Þar telur maður augljós tækifæri fyrir til að mynda Háskólann á Akureyri sem hefur verið að þróa frábært nám og unnið líka með þeim á Vestfjörðum við að útvíkka það enn frekar. Þar ætti að vera hægt að þróa samstarf á þessum vettvangi.

Ánægjulegt er líka að heyra fulltrúa í Norðurlandaráði lýsa áhuga á að taka þessa hugmynd kannski frekar inn á þann vettvang. Ástæða er til að minnast jafnframt á það hér að Vestnorræna ráðið fékk nýverið áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu. Vestnorræna ráðið ætti, alveg eins og við Íslendingar í okkar alþjóðasamstarfi, að horfa fyrst og fremst til þess þáttar þar sem við höfum eitthvað fram að færa. Ég held að þessar þjóðir hafi klárlega töluvert mikið fram að færa þegar kemur að sjávarútvegsfræðum.