148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[16:21]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Allt frá árinu 2010 má segja að beðið hafi verið eftir lagaumgjörð um NPA. Með þessari lagasetningu er ekki bara sett umgjörð um það þjónustumódel heldur um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir yfirleitt.

Við stígum mikilvægt skref inn í 21. öldina með þessari lagasetningu en við verðum jafnframt að gera okkur grein fyrir því að verkinu er ekki lokið. Réttindi fatlaðs fólks og staða þess í samfélaginu verður áfram verkefni sem samfélagið allt þarf að huga að. Endurskoðunarákvæði laganna er í því sambandi afar mikilvægt og þingið, fatlað fólk og hagsmunasamtök þeirra, aðrir hagsmunaaðilar og ráðuneytið þurfa að halda vöku sinni til að vel megi til takast.

Ég þakka hv. velferðarnefnd og starfsfólki þingsins fyrir vinnuna við frumvarpið og einnig ráðuneytinu og umsagnaraðilum fyrir þeirra framlag. Með samstilltu verklagi hefur okkur tekist að koma málinu til lokaafgreiðslu og við skulum fagna þessum tímamótum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)