148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[16:27]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eins og aðrir hv. þingmenn fagna ég þeim tímamótum að við séum loks að greiða atkvæði um þetta mikilvæga mál. Þetta er í þriðja sinn sem ég hef notið þess heiðurs að fá að ræða það í hv. velferðarnefnd. Allan tímann hefur verið gott og mikið samstarf og samstaða um mikilvægi málsins. Ég vil meina að þingið hafi oft sýnt að það getur náð góðri samstöðu og góðum árangri í stórum málum eins og þessu. Það er að gerast hér í dag og því ber að fagna.

Ég þakka einnig gott samstarf í hv. velferðarnefnd. Ég vona að samstarfið við hagsmunaaðilana, notendurna og þá sem eiga að veita þjónustuna haldi áfram alveg út reglugerðarvinnuna og regluvinnuna hjá sveitarfélögunum og framkvæmdarvaldinu. Það er mjög mikilvægt og ég fagna bara í lokin þessari góðu viðbót við val notendanna sem þurfa á þessari þjónustu að halda.