148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[16:28]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta eru sannarlega tímamót og gleðistundir í dag. Ég vil byrja á að óska hv. velferðarnefnd innilega til hamingju með þennan frábæra árangur, þá góðu samvinnu og þá einurð sem hún hefur sýnt í þessu máli. Ég er stolt af því að vera á þinginu akkúrat núna og fá að vera þátttakandi í að greiða atkvæði um NPA, notendastýrða persónulega aðstoð, fyrir fólk sem þarf sérstaka aðstoð.

Ég vonast líka til þess að hér eigi eftir að standa það sem við eigum eftir að taka jafn fallega utan um, samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og löggilda hann að fullu. Það verða líka önnur tímamót sem ég vona svo sannarlega að við séum öll tilbúin að stefna að.