148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

ættleiðingar.

128. mál
[17:31]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti allrar allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ættleiðingar, umsagnir nánustu fjölskyldu.

Þetta frumvarp snýst umfram allt um réttindi barna og velferð þeirra. Það er liður í því að bæta réttarstöðu barna sem hafa misst annað foreldri eða bæði og er viðleitni til að styrkja tengsl þeirra við fjölskyldu hins látna foreldris svo ekki bætist sorg vegna rofinna fjölskyldutengsla ofan á þá sorg sem fylgir fráfalli ástvinar. Í lagatæknilegu samhengi er þetta smámál, en fyrir hvern einstakling sem gengur í gegnum missi og sorg getur þetta skipt miklu máli.

Með frumvarpinu er lagt til að áður en afstaða er tekin til ættleiðingarumsókna vegna barns sem misst hefur misst annað foreldri eða bæði skuli leita umsagnar nánustu fjölskyldu látna foreldrisins eða þeirra beggja ef bæði eru látin. Þetta á við um hvort heldur sem er frumættleiðingar, stjúpættleiðingar eða fósturættleiðingar.

Markmið frumvarpsins er eins og ég nefndi að tryggja að ekki verði rofin varanleg tengsl barnsins við fjölskyldu látins foreldris án nokkurrar aðkomu nánustu ættingja þess foreldris eða foreldra.

Það skiptir mjög miklu máli að vel sé vandað til verka við ættleiðingu, enda er ættleiðing varanleg ákvörðun með gríðarlega mikil réttaráhrif. Þetta ræddi nefndin nokkuð í umfjöllun sinni, en við ættleiðingu öðlast kjörbarn sömu réttarstöðu gagnvart kjörforeldrum, ættmennum þeirra og þeim sem eru í kjörsifjum við þá eins og það væri eigið barn kjörforeldranna nema lög mæli á annan veg. Frá sama tíma falla niður lagatengsl barnsins við kynforeldra, önnur ættmenni og þá sem eru í sifjum við þá, nema lög kveði öðruvísi á. Þetta er óafturkræf ákvörðun sem leiðir til þess að öll lagaleg tengsl einstaklings við upprunafjölskyldu rofna og stofnað er til nýrra samsvarandi tengsla milli barnsins og þess eða þeirra sem ættleiða.

Það að barn missi foreldri sitt hefur eðli málsins samkvæmt gríðarlega mikil áhrif á líðan þess til langframa. Þetta hefur jafnframt komið skýrt fram í ýmsum rannsóknum. Nefndin fjallaði m.a. aðeins um rannsóknir Sigrúnar Júlíusdóttur prófessors í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Sigrún hefur bent á að í kjölfar andláts foreldris séu börn oft afskipt og ein, sitja jafnvel með kvíða og erfiðar hugsanir og áhyggjur af framtíð sinni. Á sama tíma og aðrir í fjölskyldunni eru að takast á við sína sorg, þá séu þau í sama pakka ef svo má segja og þurfi jafnframt önnur verkfæri til að takast á við það en fullorðna fólkið í kring. Sigrún hefur bent á að í ofanálag geti börn lent í klemmu á milli fjölskyldna sinna líkt og þegar ágreiningur er um forsjá í fjölskyldum sem við þekkjum kannski oftar þar sem skilnaður á sér stað.

Hluti af batanum hjá börnum í þessari stöðu, hluti af því að vinna úr sorginni við ástvinamissinn, er að eiga áfram í samskiptum við fjölskyldu látna foreldrisins, við fólkið sem stendur barninu nærri. Með því að búa barninu þannig umhverfi þar sem það upplifir sterkt tengsl við uppruna sinn og þar sem það upplifir öryggi, er hægt að milda sorgina og hjálpa til við það ferli.

Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Ég læt nefndarálitið sjá um að útskýra megnið af þeim, en langar að lesa hér megintillögu frumvarpsins sem nefndin umorðar þannig að hún verði kannski ögn skýrari en hún var upphaflega í frumvarpinu. Við leggjum til að hún verði svohljóðandi:

„Nú er annað foreldri látið eða bæði og skal þá, ef unnt er, leita umsagnar foreldra þess foreldris sem látið er, systkina þess foreldris sem látið er og systkina þess sem ættleiða á áður en afstaða er tekin til ættleiðingarumsóknar, enda sé sá sem ættleiða á yngri en 18 ára. Heimilt er jafnframt að leita umsagnar annarra sem eru nákomnir barni, ef talin er þörf á, enda sé sá sem ættleiða á yngri en 18 ára.“

Svo maður útskýri þetta á mannamáli þá erum við að tala um ættartré þar sem búið er að klippa eina grein af, foreldri hefur dáið, barnið er eftir og við viljum tryggja að amma og afi og þeir sem eru allt í kringum þessa grein sem fellur frá hafi eitthvað um það að segja þegar tekin er varanlega ákvörðun um framtíð þessa einstaklings.

Í umfjöllun nefndarinnar voru ýmis atriði sem við ræddum sem mig langar að koma aðeins inn á. Það eru sérstaklega þrjú sem mig langar hér að nefna, jafnvel álitamál, sum jafnvel heimspekileg. Þau eru í fyrsta lagi: Hvað er nánasta fjölskylda? Í öðru lagi: Hvaða áhrif hefur þessi aukni fjöldi umsagna sem við leggjum til að bætist inn í á ættleiðingarferlið? Í þriðja lagi: Kalla ólíkar tegundir ættleiðinga á ólíkt ferli?

Í fyrsta lagi hin heimspekilega spurning um hvað sé nánasta fjölskylda og hverjir séu nákomnir barninu. Þarna toguðust á ólík sjónarmið hjá umsagnaraðilum. Ýmsir fögnuðu því að það væri gott að hafa sem víðasta skilgreiningu á því hverjum ætti að banka upp á hjá til að fá umsögn í ættleiðingarferlinu. Það endurspeglar líka margbreytileika mannlífsins þar sem fjölskyldur eru ýmiss konar að ekki sé niðurnjörvað nákvæmlega hvaða einstaklingar það eru í einhverri tæmandi úttekt. En á móti kemur að þeim sem kannski eru líklegastir til að starfa með þennan lagatexta óx nokkuð í augum tilhugsunin um snjóbolta sem gæti haldið áfram að velta upp á sig í eilífum umsagnarbeiðnum til endalausrar raðar af fólki sem gæti mögulega talist til ættmenna barna sem á að ættleiða.

Nefndin telur nauðsynlegt að það sé alveg skýrt til hvaða aðila skuli leita umsagnar í þeim tilvikum sem frumvarpið tekur til, m.a. til þess að málsmeðferðin verði ekki of þung í vöfum við öflun umsagna.

Við meðferð málsins kom fram að um geti verið að ræða margs konar fjölskyldumynstur og ólíkar aðstæður hverju sinni. Því geti verið nauðsynlegt þegar litið er til hagsmuna barnsins að afla umsagnar annarra en eru nákvæmlega taldir upp, t.d. ef það kemur hreinlega í ljós við athugun að þeir eru tengdir viðkomandi barni.

Nefndin leggur áherslu á að við mat á ættleiðingarumsóknum sé ætíð tekið mið af hagsmunum og vilja barnsins og að hluti af því sé einmitt að öflun umsagna um nánustu fjölskyldu verði ekki til þess að óhóflegar tafir verði á undirbúningi og töku ákvörðunar um ættleiðinguna.

Nefndin telur að við framkvæmdina verði alltaf að ætla ákveðið svigrúm eftir því hvernig hver og ein fjölskylda er samsett. Þess vegna leggjum við til þá breytingu sem ég las hér upp, að í ákvæðinu verði mælt fyrir um að það skuli leita umsagnar foreldra hins látna foreldris, systkina þess og systkina þess sem ættleiða á áður en afstaða er tekin til ættleiðingarumsóknar. Þetta er kjarninn. Þetta er fólkið sem á að leita umsagnar hjá.

Síðan bætum við í nefndinni við að jafnframt verði heimilt að leita umsagnar annarra sem eru nákomnir barni ef talin er þörf á, enda sé sá sem ættleiða á yngri en 18 ára. Þetta er svigrúmið. Þarna þarf sýslumaður eða barnaverndaryfirvöld eða hver það er sem kemur að málinu að skoða mál þess barns sem er til umfjöllunar og skera úr um það hvort það séu t.d. stjúpforeldrar eða ættingjar með veruleg tilfinningatengsl við barnið sem eigi fullt erindi inn í umsagnarferlið.

Í öðru lagi er það hvaða áhrif megi búast við að þessi aukni fjöldi umsagna hafi á ættleiðingarferlið. Þá er rétt að taka fram að að mati nefndarinnar er markmið frumvarpsins umfram allt að tryggja vandaðri meðferð ættleiðingarumsókna í þessum tilvikum með því að aflað verði fleiri gagna sem verði hægt að byggja á einhvers konar heildarmat á því hvar hagsmunum barnsins sé best borgið. Jafnframt er markmiðið að tryggja að ekki verði rofin varanleg tengsl við fjölskyldu látins foreldris eða foreldra án þess að fjölskylda þeirra komi að.

Frekar en að taka fram einhverja skýra útfærslu á því hvaða ferli fer af stað ef umsagnir eru neikvæðar eða hvað annað þá leggur nefndin umfram allt áherslu á að það verði viðhaft eitthvert verklag innan þeirra stofnana sem fara með þessi mál sem tryggi að þessi vonandi haugur af umsögnum ástvina verði hluti af heildarmati við ættleiðingu. Þegar um er að ræða umsagnir nákominna verði að skoða sérstaklega í hverju máli fyrir sig hvort og með hvaða hætti efni þeirra hafi áhrif á niðurstöðu málsins og hvernig þær þjóni hagsmunum barnsins og kannski eitt sem við megum aldrei gleyma, hver sé afstaða barnsins sjálfs til ættleiðingar, á öllum aldri en sérstaklega þegar fram líður og það fer að nálgast fullorðinsár.

Í þriðja lagi þurfti nefndin að skoða nokkuð vel hvort ólíkar tegundir ættleiðinga kölluðu á ólík ferli. Það eru ólíkar aðstæður uppi eftir því hvort um er að ræða frumættleiðingu, stjúpættleiðingu eða fósturættleiðingu. Það komu fram sjónarmið um að það þyrfti að taka tillit til réttarstöðu fósturbarna sérstaklega og gera greinarmun á frum- og stjúpættleiðingum annars vegar og fósturættleiðingum hins vegar í frumvarpinu. Þó að um sé að ræða eðlisólík mál þá telur nefndin að í þessu tilviki verði að líta til markmiða frumvarpsins sem eru m.a. að vernda réttindi barnsins og upprunatengsl og því sé ekki ástæða til að gera sérstakan greinarmun á þessum flokkum, auk þess sem það er spursmál hvort það sé yfir höfuð hægt. Hér erum við aftur komin að því hvað mannlífið er margbreytilegt og fjölskyldur ólíkar, það er mögulega sjaldnast hægt að finna hrein dæmi um aðra tegundina af ættleiðingu sem fellur mjög snyrtilega í annað hólfið frekar en hitt.

Hvort heldur sem er þá þarf í öllum tilvikum að meta hver nauðsyn ættleiðingar er. Þar sem það er mat nefndarinnar að tilgangur frumvarpsins sé að varpa einfaldlega frekara ljósi á þá nauðsyn, svo sem hvort sem til staðar séu mikilvæg tengsl og hvort þau séu barni fyrir bestu, þá teljum við eðlilegt að allar tegundir ættleiðinga séu settar undir sama hatt, sérstaklega í ljósi þess að við ætlumst ekki til þess að þetta verði sérstaklega íþyngjandi eða til þess að lengja ferlið.

Þessi hluti umfjöllunar nefndarinnar leiddi hins vegar í ljós að það er full ástæða til að hlusta á gagnrýni sem barst frá t.d. Félagi fósturforeldra í umsögn þess um samspil þessara ólíku kerfa, en með því væri í raun verið að taka upp þráðinn í starfi sem þegar hefur verið sett af stað innan stjórnsýslunnar en hefur legið í láginni.

Í mars 2011 gaf Rannsóknarstofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni út skýrslu um úttekt á löggjöf um ættleiðingar og framkvæmd ættleiðingarmála á Íslandi. Sú skýrsla var unnin fyrir innanríkisráðuneytið. Nefndin telur mikilvægt að lög um ættleiðingar verði rýnd og endurskoðuð með hliðsjón af þeirri vinnu og samspili löggjafarinnar við málefni barna og alþjóðasamninga um réttindi barna. Nefndin beinir því til dómsmálaráðuneytisins að þetta fyrirkomulag verði skoðað og þar verði skoðuð þessi álitamál, m.a. hvort tilefni sé til að gera greinarmun á ólíkum tegundum ættleiðinga og þá hvort önnur skilyrði eigi að gilda um fósturættleiðingar, svo sem hvort afmarkaður verði ákveðinn fósturtími áður en hægt er að sækja um ættleiðingu og hvort nánasta fjölskylda barns sem ættleitt hefur verið af fósturfjölskyldu geti sótt um umgengni við barnið. Það eru ótal mörg svona atriði sem mætti skoða. Aðalatriðið er það að hér er kerfi þar sem þarf margt að laga. Það frumvarp sem við erum að ræða hér í dag tekur bara á örlitlum hluta þess sem þarf að gera.

Frumvarpið var lagt fram af fulltrúum allra flokka hér á þingi. Það nefndarálit sem ég er hér stuttlega búinn að gera grein fyrir er flutt af öllum fulltrúum í allsherjar- og menntamálanefnd, þannig að það ríkir mikill einhugur í málinu. Ég tel að nefndin hafi unnið gott starf og rannsakað þetta vel og vandlega. Þó að það megi, eins og ég segi, gera meira í þessum málaflokki þá er þetta mál bara ekki vettvangurinn til þess.

Undir þetta nefndarálit skrifa auk þess sem hér stendur Anna Kolbrún Árnadóttir, Birgir Ármannsson, Guðmundur Andri Thorsson, Jón Steindór Valdimarsson, Páll Magnússon, Steinunn Þóra Árnadóttir, Willum Þór Þórsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

Ég held að það sé ágætt líka þegar við erum með þetta mál í höndunum að hafa hugfast að við erum að ræða um fólk í afar viðkvæmri stöðu á erfiðum tíma í lífinu. Þetta eru fjölskyldur sem hafa upplifað missi og sorg og tilgangur þessarar lagabreytingar er að löggjafinn og samfélagið standi vörð um réttindi barnanna sem ganga í gegnum foreldramissi hvað varðar þennan eina afmarkaða þátt. Það getur skipt þau miklu máli. Það getur skipt miklu máli að þurfa ekki að upplifa tvöfaldan missi að óþörfu, þurfa ekki fyrst að upplifa það að missa foreldri, síðan að ganga í gegnum það að missa tengslin við stórfjölskylduna sem þau tengjast í gegnum það foreldri.

Þess vegna mælist ég til þess, virðulegi forseti, að þetta mál fái jákvæða afgreiðslu sem fyrst.