148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

26. mál
[13:39]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. NPA- og félagsþjónustufrumvörpin hafa verið á borði velferðarnefndar síðan ég kom á þing í lok árs 2016. Það sem kom mér mest á óvart þá við þessi stóru og mikilvægu mannréttindamál var skorturinn á raunverulegu samráði við notendur þjónustunnar, þ.e. raunverulegu samráði sem er í gegnum allt ferlið, frá A til Ö, þar sem ekki einungis hagsmunaaðilum er boðið á fund til að tjá sig, heldur þar sem fólk vinnur saman, hlustar raunverulega og tekur tillit til athugasemda og breytingartillagna sem koma fram.

Ég þakka nefndarmönnum velferðarnefndar, fulltrúum fatlaðs fólks og öllum þeim sem komu að vinnunni fyrir þeirra þátt í að gera þetta samráð að möguleika. Samráð og gagnsæi við lagagerð er það sem tryggir að við samþykkjum hér á þingi bestu mögulegu útkomu fyrir samfélagið allt.

Á þingpöllunum í dag er gott að sjá fulltrúa þeirra sem þetta frumvarp valdeflir. Vonandi er þetta bara fyrsta skrefið í átt að fullu aðgengi fatlaðra að samfélaginu.