148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

hvalveiðar.

[15:06]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Eins og hv. þingmaður þekkir, sem gegndi embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, eru þær veiðar sem fyrirhugaðar eru í sumar hluti af fimm ára tímabili sem gefinn var út kvóti fyrir árið 2013 til ársins 2018. Þetta er sem sagt síðasta árið þar sem þetta leyfi er í gildi.

Hv. þingmaður spyr hvaða stefna verði tekin um hvalveiðar og þá vænti ég þess að hún sé að spyrja um það þegar þessu tímabili lýkur því að kvótinn er gefinn út til fimm ára og það er sérstök ákvörðun að ganga inn í það og snúa við fyrri ákvörðun, sem ég er ekki viss um að standist. Hins vegar liggur algjörlega fyrir að frá og með hausti 2018 þarf að taka nýja ákvörðun um framhald hvalveiða, hvort það verði gefinn út nýr kvóti eða ekki. Ég tel mjög brýnt að áður en slík ný ákvörðun verði tekin fari fram mat, eins og hv. þingmaður vísar í í sinni fyrirspurn, mat á umhverfisáhrifum hvalveiða, samfélagslegum áhrifum og efnahagslegum, þ.e. fram fari raunverulegt mat sem byggist á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og skoðað hvort eðlilegt sé að halda áfram hvalveiðum við Íslandsstrendur eða ekki.

Það er stefna okkar Vinstri grænna, við höfum talið að þessar veiðar séu ekki sjálfbærar en við áttum okkur hins vegar á því að þær veiðar sem fyrirhugaðar eru í sumar eru síðasta ár veiða á fimm ára tímabili sem ákveðið var 2013 með útgefinni reglugerð þá.