148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

sektareglugerð vegna umferðarlagabrota.

560. mál
[17:31]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér fyrirspurn hv. þm. Vilhjálms Árnasonar sem spyr út í helstu breytingar sekta og viðurlaga við umferðarlagabrotum sem nú hafa tekið gildi. Hæstv. ráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson fór hér yfir rök fyrir þessum hækkunum og reglugerðarbreytingum sem eru fyrst og fremst, miðað við það sem ég greip hér, að sektir við umferðarlagabrotum hafa lítið og ekkert breyst í nær áratug í mörgum tilvikum. Lágar sektir hafa í einhverjum tilvikum ekki þann fælingarmátt sem æskilegt er.

Ég tek undir vangaveltur hv. fyrirspyrjanda um ökuskírteini og lágmarkssekt í 20.000 kr. vegna þeirra breytinga sem hafa orðið í okkar samfélagi á rafrænni öld. Hæstv. ráðherra kom einnig inn á þær.

Svo vil ég aðeins bæta í umræðuna með spurningu af því að reiðhjólanotkun hefur aukist: Hvað þýðir „brot á sérreglum fyrir reiðhjól“?