148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ýmsum virðist hafa þótt stuðandi ummæli forystumanna verkalýðshreyfingarinnar 1. maí, en kannski öllu meira stuðandi eru launahækkanir forstjóra ýmissa ríkisfyrirtækja sem áður voru undir kjararáði en eru núna undir stjórn fyrirtækjanna. Þá er ég að tala m.a. um Isavia, Ríkisútvarpið, Landsvirkjun og Landsnet.

Fyrrverandi fjármálaráðherra, Benedikt Jóhannesson, gaf á sínum tíma út tilmæli til þessara stjórna um að fara ekki í launaskrið fyrir þessa forstjóra þegar hækkun kæmi frá kjararáði. Nú stöndum við hér örfáum mánuðum eftir stóra launahækkun forstjóra Hörpu t.d. upp á 20% þar sem tekin hefur verið ákvörðun um að lækka laun lægst launaða starfsfólksins sem þar vinnur, við væntanlega alveg ótrúlega jákvæðar undirtektir eða hitt þó heldur. Það þykir mér ekki vera sérstaklega gott veganesti út í kjaraviðræðurnar. Maður veltir því fyrir sér hvað hafi breyst.

Forstjóri Isavia talaði um að þessar launakröfur væru sérstakt áhyggjuefni rétt eftir að hann hækkaði sjálfur um 400.000 kr. á mánuði. Í mínum huga eru tvær hugsanlegar skýringar. Annaðhvort tóku allar þessar stjórnir upp á sitt eindæmi sjálfstæðar ákvarðanir á svipuðum tíma um að hunsa tilmæli fyrrverandi fjármálaráðherra, sem þeim er vitanlega heimilt að gera þar sem þær eru sjálfstæðar stjórnir, eða að núverandi fjármálaráðherra, hæstv. Bjarni Benediktsson, hefur dregið þessi tilmæli til baka og ákveðið að launaskrið forstjóra ríkisfyrirtækja séu bara hið besta mál.

Ég veit ekki hvort er. Ég hef í rauninni engar forsendur til þess að spá fyrir um það. En ég velti fyrir mér hver hafi hag af því að skapa þetta vandamál hér og nú vegna þess (Forseti hringir.) að ég trúi því að það sé ekki launalágur almenningur á Íslandi.