148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[12:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef lesið eitthvað af kenningum Ólafs Margeirssonar og fengið þær útskýrðar. Ég er alveg opinn fyrir sumum þeirra.

Hvað það varðar að það hafi verið einhvers konar mýta að íslenskan krónan sé óstöðug þá er ég ósammála því. Ólafur Margeirsson er þeirrar skoðunar og hv. þingmaður að íslenska krónan sé í eðli sínu ekki óstöðug, þ.e. ef við erum með frjálst flæði fjármagns. Ég er bara ósammála. Ég tel vera fullkomna vissu fyrir því að ef við erum með sjálfstæða peningastefnu og frjálst flæði fjármagns þá verður krónan óstöðug. Eina leiðin til að komast hjá því er með fjármagnshöftum eða einhverju slíku. Við gætum gert það. Við gætum haft íslenska krónu í varanlegum höftum. Þannig getum við öðlast stöðugleika með íslenskri krónu. Þá er það fórnarkostnaðurinn. Það virðist ekki vera vilji til þess, hvorki hjá þessum yfirvöldum né heldur tíðkast það almennt að hafa höft sem varanlega lausn, þau eiga að vera tímabundin lausn við einhverjum svakalegum aðstæðum. En það myndi virka, vissulega.

Hvað gjaldmiðil þá? Þá er komið aðeins lengra inn í umræðuna. Það er satt best að segja frekar langt síðan ég skoðaði þau mál af mikilli alvöru, hvaða gjaldmiðil við ættum þá að taka upp. En út frá pólitíska landslaginu, með öllum þeim fyrirvörum sem fylgja inngöngu í Evrópusambandið er evran sá kostur sem oftast er nefndur, og sennilega bestur. En umræðu minni við aðra um t.d. kanadískan dollar er ekki lokið. Sumir hafa kallað það galna hugmynd. Kannski er hún það, ég er ekki viss. Ég er líka að segja að verðtryggingin er komin til að vera svo lengi sem við ætlum að vera með íslenska krónu og frjálst flæði fjármagns.