148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[12:49]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Hann svaraði fullt af spurningum sem ég spurði ekki, sem var í sjálfu sér ánægjulegt. Ég sagði ekki að íslenska krónan væri ekki óstöðug. Ég sagði að það væri ekki óstöðugleika hennar að kenna hvernig ástandið væri, heldur óstöðugri hagstjórn, sem er allt annað. Mér þykir reyndar athyglisvert að hv. þingmaður skuli vera ákveðinn í því að við getum kastað krónunni fyrir róða án þess að hafa gert okkur nokkurn veginn grein fyrir hvað það er sem við myndum taka upp í staðinn. Mér finnst það athyglisvert. Fram hefur komið að upptaka evru er háð því að við göngum í Evrópusambandið sem ekki er þjóðarvilji fyrir, alla vega ekki eins og nú háttar, og ekkert víst að það muni breytast.

Þess vegna hlýt ég að ítreka þá spurningu: Ef það er svona erfitt að gera framtíðarskuldbindingar í íslenskri krónu, hvað eigum við þá að gera? Eigum við að leyfa fólki að taka erlend lán? Er það eitt sem við ættum að gera?

Hv. þingmaður sagði: Verðtryggingin fer aldrei. Það þótti mér svolítið svartsýnt af því að hægt er að taka hana af með einfaldri lagasetningu. Verðtrygging er notuð, síðast þegar ég vissi, í þremur löndum í heiminum, eitt þeirra er í Suður-Ameríku, mjög hrjáð land, annað er þróunarland í Asíu, og þriðja landið er einhvers staðar þar sem geisar stríð. Ekkert af þessu á við hér. Þess vegna spyr ég: Til hvers þurfum við verðtryggingu?