148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[14:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Við tökum nú til við síðari umr. um þessa þingsályktunartillögu sem var lögð fram eftir áramót af nokkrum Framsóknarþingmönnum og er lægsti mögulegi þröskuldur í því að reyna að gera eitthvað fyrir þau heimili í landinu sem eru með verðtryggð lán. Þegar tillagan kom fram á sínum tíma var hún afskaplega loðin og metnaðarlítil og eftir breytingar er búið að ganga þannig frá að tillagan er teflonhúðuð, hún gerir nákvæmlega ekki neitt. Mér finnst eiginlega best af öllu að nú er búið að breyta nafninu á henni, það er búið að breiða yfir nafn og númer og setja á hana nýtt nafn. Nú heitir hún tillaga til þingsályktunar um mat á forsendum við útreikning verðtryggingar. Þessi tillaga er þannig orðuð að við hefðum alveg eins getað skorað á ríkisstjórnina að ganga í kringum sundlaug og pæla í því hvort hún ætlaði að drepa tánni í til að kanna hitann í henni, svo loðin er hún.

Við fyrri umr. hafði ég á orði eina setningu úr greinargerðinni sem fylgir og hún hljóðar svona, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun hefja skoðun á því hvernig megi fjarlægja fasteignaverð úr mælingu neysluvísitölunnar.“

Á þessum tíma benti ég á að lausnin væri til. Hún er í framlögðu frumvarpi Miðflokksins sem kom fram á svipuðum tíma og þessi tillaga og gerir þessa tillögu óþarfa. Það er hins vegar ríkjandi eitthvert metnaðarleysi í hv. efnahags- og viðskiptanefnd sem verður til þess að menn taka þessa loðmullu hér og afgreiða hana, en frumvarp Miðflokksins situr enn í þeirri ágætu hv. nefnd. Ég vil nota tækifærið og skora á nefndina og formann hennar, sem er reyndar ekki í salnum núna, að gyrða sig í brók og afgreiða til 2. umr. frumvarpið sem lagt var fram þannig að við getum tekið það til meðferðar.

Einn af hv. flutningsmönnum sagði í andsvari rétt áðan, hv. þm. Willum Þór Þórsson, að nú væri minni umræða um verðtryggingu af því að verðbólgan væri lág. Við hv. þingmaður erum greinilega ekki að tala við sama fólkið því að fólkið sem við mig talar segir: Þessi grunnur eins og hann er núna kostar heimilin stórfé. Það að hafa þetta í óbreyttu formi eins og nú er eða hafa tekið út húsnæðisliðinn munaði heimilin í landinu ekki nema 50 milljörðum kr. frá mars 2017 til mars 2018. Það eru svona 500.000 kr. á hvert heimili í landinu ef við gerum ráð fyrir því að 100.000 heimili séu með verðtryggð lán.

Það er líka mjög forvitnilegt sem er líkt með þessari síðari umr. og fyrri umr. að hér er enginn þingmaður Samfylkingarinnar. Þeir tóku heldur ekki þátt í fyrri umr. Ég man eftir einum þingmanni VG sem kom upp í andsvör, nei, ekki rétt, það var Sjálfstæðisþingmaður, VG-liðar sátu hjá og ræddu ekki þetta mál. Af því verður maður að álykta að fulltrúar þessara tveggja flokka hafi ekki áhuga á að afnema hér verðtryggingu eða gera nokkrar einustu breytingar á verðtryggingu í landinu, heimilunum í landinu til heilla. Það er út af fyrir sig athyglisverð yfirlýsing og henni ber að fagna.

Það er hins vegar eitt sem ég er búinn að vera að velta fyrir mér mjög mikið núna vegna þess að það vill þannig til að ekki alls fyrir löngu, fyrir þrem þingum síðan eða eitthvað slíkt, man ég ekki betur en að við höfum sett reglur um að einstaklingar mættu ekki taka lán í mynt sem þeir hefðu ekki tekjur í. Það er út af fyrir sig mjög skynsamlegt en á sama tíma höfum við haft það þannig í mörg ár, og erum að festa í sessi með þessari tillögu hér, að einstaklingar taki lán í sterkustu mynt í heimi sem er verðtryggð íslensk króna. Ég veit ekki um nokkurn mann, a.m.k. ekki hér inni, sem er með tekjur í verðtryggðri íslenskri krónu. Ég efast um að nokkur einasti maður á Íslandi sé með tekjur í þeirri mynt þannig að ég get ekki vel skilið að menn skuli koma með tillögu sem hvetur til lögbrota fram í tímann. En auðvitað verða menn að fara einhverja þá leið sem þeir ráða við og verða náttúrlega að halda í þessa stóla fyrir aftan mig. Auðvitað vinna menn ýmis skítverk út af því. Þessi tillaga mun ekki breyta nokkrum sköpuðum hlut fyrir heimilin í landinu. Í nefndarálitinu segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Við greiningarvinnuna verði sérstaklega horft til þess hvernig verðbólga er mæld í helstu viðskiptalöndum Íslands og metið hvaða áhrif breytingin hefði á launakjör, lánakjör, stöðu verðtryggðra lána og vexti, sem og áhrif sem tillögur verkefnisstjórnar um endurmat peningastefnu kunna að hafa á vísitölur, verðtryggingu og vaxtastefnu Seðlabankans.“

Fyrri partinn er hægt að gera á hálftíma, að veiða saman vísitölur um alla Evrópu. Þær eru til uppi í Hagstofu á excel-skjali og það þarf bara að ýta á prenta og þá fáum við þær upplýsingar. Það tekur hálftíma.

Hvaða áhrif breytingin hefði á launakjör í landinu? Eigum við ekki bara að reyna að ímynda okkur, herra forseti, hvaða áhrif það hefði á einn launamann sem er með verðtryggt lán að þurfa að borga 500.000 kr. lægri upphæð á ári hverju en fyrr, mann sem er kannski með 400.000 kr. á mánuði brúttó? Eru þetta ekki bara töluverð áhrif? Ég held það.

Það sem ég skil ekki er að menn skuli stíga þetta ótrúlega stutta skref núna í staðinn fyrir að afgreiða mál út úr nefnd sem leysir þetta að miklu leyti.

Mjög margt hefur komið fram í þessari stuttu umræðu um málið. Menn hafa talað um að krónan sé til óþurftar sem er reyndar í andstöðu við skoðanir virtra hagfræðinga. Enginn eða fáir minntust í umræðunni áðan á vaxtastigið í landinu. Mönnum verður tíðrætt um að íslenska krónan sveiflist og víst gerir hún það. Ég veit ekki hvaða skoðun Norðmenn hafa á þessu. Þeirra gjaldmiðill hefur rýrnað um 20% á nokkrum árum, ef ég man rétt, sænska krónan eitthvað svipað. Þeir eru samt enn þá með 2% vexti og undir því á húsnæðislánum. Þar er engin verðtrygging.

Illu heilli fletti ég því ekki upp í tölvunni áðan en ég man eftir þremur löndum sem ég get ekki nefnt núna, eitt er þróunarríki einhvers staðar við botn Miðjarðarhafs, annað í Suður-Ameríku og þriðja er ríki sem stendur í styrjöld. Þau verðtryggja sín lán — og svo Ísland. Við erum í frábærum félagsskap þarna. Við höfum ekki metnað til að brjótast út úr þessu kerfi og höfum ekki kjark til þess. Það er alveg rosalega aumt.

Við vitum núna að þeir sem hafa ferskustu hugsunina í verkalýðshreyfingunni setja á oddinn akkúrat þetta mál sem við erum núna að tala um þar sem engin lausn er í því máli sem við erum að fjalla um. Menn hafa lagt áherslu á að húsnæðisliðurinn verði tekinn út úr vísitöluútreikningi á lánum. Miðflokkurinn er búinn að svara þessu með því að leggja fram frumvarpið. Fulltrúar Flokks fólksins tóku undir það í umræðunni um daginn, enginn annar hafði kjark. Enginn annar hafði áhuga. VG hafði ekki áhuga. Samfylkingin hafði ekki áhuga. Þetta eru eins og ég segi nýtilegar upplýsingar en ekki uppörvandi fyrir heimilin í landinu.

Nú kemur þetta mál til síðari umr. og búið að gera það enn loðnara en fyrr, búið að gera það enn ómarkvissara og ónauðsynlegra. Auðvitað stöndum við ekki í vegi fyrir því að tillagan verði afgreidd frá hinu háa Alþingi en, herra forseti, án þess að gera lítið úr hundahaldi í þéttbýli held ég að breyting á hundahaldi í þéttbýli hefði svipuð áhrif og þessi tillaga. Ég get ekki séð að hún marki dýpri spor, því miður.

Við erum að horfa á afurð þriggja stjórnmálaflokka sem koma sér saman um stysta mögulega skref sem hægt er að stíga. Okkur var sagt að hér þyrfti ríkisstjórn með breiða skírskotun. Það er engin skírskotun í þessu, hvorki breið né hinsegin, ekki nokkur. Þetta er bara ávísun á óbreytt ástand, eina nefndina í viðbót, sem á að hugsa um það hvort ríkisstjórninni sé óhætt að labba í kringum sundlaug og drepa tánni í til að kanna hitastigið. Það er það sem þessi tillaga felur í sér. Hún felur enga lausn í sér.

Hvað á þetta svo að hafa í för með sér? Jú, að ráðherra flytji skýrslu á Alþingi fyrir árslok 2018 um helstu niðurstöður þessa starfshóps sem hefur enga getu. Þá munum við væntanlega taka hér aftur umræðu um ekki neitt í tvo, þrjá tíma. Þá verða menn búnir að eyða einum níu mánuðum í að veiða saman staðreyndir og upplýsingar sem allir vita hverjar eru. Allir vita að verðtrygging neytendalána hefur vond áhrif á heimilin í landinu og afkomu þeirra. Það verður staðfest. Af því að það verður talað við varðhundana líka munu koma varnaðarorð frá lífeyrissjóðunum og Seðlabankanum sem vill hafa bæði belti og axlabönd og tvö sett af hvoru. Menn munu reyna að þvo hendur sínar sem ákafast, allir sem eiga að hafa og geta haft áhrif á þetta mál.

Ég sé alveg fyrir mér, herra forseti, að skýrsla ráðherra í haust verður lýsing á handþvotti. Við getum lesið um handþvott í Biblíunni þar sem menn þvoðu hendur sínar líka af ógæfu. Nú verður það upp á teningnum í haust. Það er svakalega illt, svo ég sé kurteis, að þessi breiðuskírskotunarríkisstjórn skuli ekki geta komið fram með merkilega skref í þessu máli en þetta sem hér er. Það er alveg rosalega aumt. Og það eru alveg rosalega slæm skilaboð t.d. inn í komandi kjarasamninga. Ég get ekki séð og get ekki ímyndað mér að þeir sem munu ráða ferðinni í næstu kjarasamningum, þ.e. af hálfu launþega, muni taka svona loðmullu sem svar. Þeir munu ekki sætta sig við það.

Í staðinn fyrir að taka djarft skref, alvöruskref, í þessu máli eins og Miðflokkurinn hefur boðið upp á, er boðið upp á þetta. Eins og ég segi uppskera menn sem mæta að borðinu með lítinn metnað og fá mál í samræmi við það. Í staðinn fyrir 30 silfurpeninga fá menn þrjá ráðherrastóla, það er gjaldið.

Í sjálfu sér er þetta mál sauðmeinlaust. Það er alveg út af fyrir sig að meinalausu að einhverjir sérfræðingar skuli fá það verkefni að sitja í níu mánuði og veiða saman staðreyndir sem eru til og allir vita um og verður svo pakkað inn í karamellubréf og ráðherra flytur skýrslu um niðurstöður nefndarinnar sem skipta ekki máli og verða ekki að neinu. Í sjálfu sér mætti raula lagstúf eftir John Lennon við þessa umræðu, lag sem heitir „Nowhere Man“ en það er ekki gott að þýða það yfir á ástkæra ylhýra á stundinni. Hann lýsir ágætlega í kvæðinu mönnum sem hafa ekki skoðun og leggja skoðanaleysi sitt til lestrar fyrir enga, það les það enginn og öllum er sama um þessa tillögu. Það verður öllum sama um hana vegna þess að í henni er ekki neitt nema ein nefnd í viðbót.

Herra forseti. Loðmullulegt var þetta fyrir og loðmullulegra er þetta orðið. Ég treysti því að skýrsla ráðherra verði enn loðmullulegri en þetta er. Þá getum við glaðst yfir því að stefna þessarar ríkisstjórnar með þessari breiðu skírskotun í málefnum heimilanna er engin, hún er ekki til. Þetta ætla menn að leggja hérna fyrir. Þetta er dapurlegt.

Eins og ég segi breytir samþykkt eða synjun þessarar tillögu engu. Hún getur varla gert skaða því að það er svo sem ágætt að eiga á einum stað þessar upplýsingar sem allir vita hverjar eru. Það getur verið gagnlegt út af fyrir sig en gagnið fyrir almenning í landinu og heimilin er minna en ekki neitt. Áhugaleysi VG og Samfylkingarinnar á þessu máli er líka í sjálfu sér athyglisvert. Það eru ágætisupplýsingar fyrir landslýð þannig að hún er ekki alveg til einskis fram komin þessi tillaga. Djúp spor mun hún þó ekki marka og gerir ekki.