148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[14:46]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Það var eitt orð í máli hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar sem leiddi til þess að ég er hingað kominn. Það var orðið „spor“. Ég kem að því. Ég hafði tækifæri til þess að fylgjast með þessu máli og taka þátt í afgreiðslu þess á vettvangi hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Ég get fullvissað hv. þingmann að þetta mál er algjörlega sauðmeinlaust og að því leytinu til í anda þess ágæta flokks, sem ég ber mikla virðingu fyrir, sem ber þetta mál fram. Ég tel það sé vel við hæfi að segja að það sé sauðmeinlaust.

Hér á ekki að gera neitt annað en að skipa starfshóp. Hver getur lagst gegn því? Ekki gerði ég það á vettvangi hv. nefndar. Ég er meðmæltur því að skipaður sé starfshópur og málið skoðað, það er ekkert að því. En það er orðið skref sem ég hjó eftir. Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson virðist meta það svo að í þessu máli virðist felast eitthvert skref. Hann notaði orðið skref, hann notaði orðið þröskuld, þetta væri það minnsta. Þetta nær því ekki einu sinni. Þetta er nákvæmlega enginn áfangi í átt að því markmiði sem ég veit að við hv. þingmaður erum sammála um, þ.e. að losa okkur við þessa verðtryggingaróværu, og þótt fyrir hefði verið.

Ég vildi bara nota tækifærið og nefna það atriði. Ég mun að sjálfsögðu fjalla mun ítarlegar um málið í heild sinni í ræðu minni á eftir.