148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[14:47]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Það kann að hafa verið óverðskulduð kurteisi af minni hálfu að kalla þetta skref. En ég kannast hins vegar ekki við það að hafa gert það með áberandi hætti. Eins og hv. þingmaður heyrði eflaust talaði ég um að menn hefðu átt að taka hér alvöruskref í þessa átt, en kannski hefur þetta bara verið kurteisi sem datt óvart upp úr mér. Ég er ekki vanur því svo sem.

Ég tek alveg heils hugar undir með hv. þingmanni að málið er alveg sauðmeinlaust, það drepur engan. Metnaðurinn í því er, eins og ég lýsti hér áðan, enginn. Það er náttúrlega ástæða fyrir því sem ég rakti hér áðan að þeir sem koma með ekkert að borðinu og engar kröfur, fá náttúrlega engu kröfum framgengt, nema um þessa þrjá stóla. En eins og ég segi, málið út af fyrir sig drepur svo sem engan þannig að það er svo sem alveg skaðlaust og ágætt að eiga á einum stað, eins og í einu hefti, þær upplýsingar sem allir vita að eru til og hverjar eru. Og það er líka ágætt ef einhverjir hafa vinnu við það í níu mánuði að veiða það saman þannig að ráðherra geti flutt okkur einhverja sykursæta skýrslu sem skiptir heldur ekki máli.