148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[14:50]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, auðvitað ættum við hér að taka stóra umræðu um verðtryggingu, um áhrif hennar og hversu illa hún leikur heimili og fyrirtæki í landinu. Ég gleðst yfir viðveru þessara tveggja þingmanna Vinstri grænna sem hér eru inni en taka ekki þátt í umræðunni. Á sama hátt gleðst ég yfir því að fulltrúi Samfylkingarinnar, sem nú er náttúrlega vant við látinn við önnur störf, sé hér með okkur. En ég tek undir með hv. þingmanni að fjarvera þessara flokka frá umræðunni er hins vegar mjög athyglisverð. Maður hlýtur að auglýsa eftir stefnu þessara flokka um verðtryggingu á neytendalánum. Hafa þeir kannski enga skoðun á því máli? Hafa þeir kannski enga skoðun á því hvernig þetta kerfi leikur heimilin í landinu? Það væri hins vegar efni í góða umræðu og þarfa.