148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[14:54]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér er ljúft að svara þessu andsvari sem ég þakka kærlega fyrir. Afstaða mín hefur ekki breyst eitt hætishót. Hér á einum tíma vorum við hv. þingmaður samherjar í stuðningsliði ríkisstjórnar sem hafði í málefnasamningi sínum ákveðið atriði um að vísitölubinding lána skyldi afnumin. Þegar kom fram á árið 2016 sáu menn hins vegar að dansfélaganum þá, sem er dansfélaginn nú, yrði ekki haggað frekar og þetta var lagt fram. Þær breytingar urðu að nú er sá sem hér stendur ekki undir þeim fjalaketti lengur sem aftur á móti hv. þingmaður er, þannig að hann getur leyft sér það að fylgja óskoraðri skoðun sinni fram án fyrirvara, án þess að taka tillit til þeirra sem tróðu honum um tær árið 2013–2016.

Hafandi haft þá reynslu frá árunum 2013–2016 þá hefði ég haldið að minn forni flokkur hefði komið fram með ákveðnari kröfur í þessum efnum, en nei, menn guggnuðu á því vegna þess að þá langaði meira í stóla heldur en árangur í þessu máli. Ég ætla ekkert að fást um það. Það er bara ákvörðun hvers og eins. En mín skoðun á þessu er nákvæmlega sú sama og hún hefur verið. Ég vil fara í þetta mál og vil fara í það núna, þess vegna lagði Miðflokkurinn fram frumvarpið sem ég minntist á sem ég vona innilega að hv. (Forseti hringir.) efnahags- og viðskiptanefnd afgreiði til 2. umr. Þá skulum við tala saman.