148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[14:57]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan þá mun ég ekkert leggjast gegn þess máli því það drepur engan, það meiðir engan. En mér þykir það metnaðarlaust. Kannski er munurinn sá að metnaður minn hefur aukist meira en hv. þingmanns á þeim tíma sem liðinn er frá því að málið var lagt fram síðast. Það kann að vera.

Það kann líka að vera að óþreyja mín hafi vaxið meira en hv. þingmanns á þessum tíma. Það kann að vera að mér hafi ofboðið enn meira en fyrr sú meðferð sem íslensk heimili fá með því kerfi sem nú er hér. Þess vegna gremst mér þetta, ég fer ekkert leynt með það eins og hér hefur komið fram, mér þykir þetta sorglega stutt skref í því máli að reyna að ná fram einhverju réttlæti fyrir heimilin í landinu. Sú afstaða mín hefur kannski breyst, hv. þingmaður. Jú, mér er meira niðri fyrir, metnaður minn er meiri, óþreyja mín er meiri.

Ég ætla ekkert að fara að metast við hv. þingmann um það hvernig hans metnaður hefur vaxið (Forseti hringir.) á þessum árum. Ég þakka honum fyrir þessi andsvör og orðaskiptin (Forseti hringir.) í dag, en ég efast ekki um það að á einhverjum tímapunkti (Forseti hringir.) munum við leggja fram (Forseti hringir.) og fara í mál sem við getum sameinast um sem verður til (Forseti hringir.) bóta fyrir heimilin í landinu.